Fyrirtækjasvið

Fyrirtækjasvið veitir stórum fyrirtækjum alhliða fjármálaþjónustu sem og sérsniðnar lausnir sem taka mið af þörfum þeirra hverju sinni. Mörg af stærstu fyrirtækjum landsins eiga farsælt viðskiptasamband við fyrirtækjasvið og hafa verið viðskiptavinir bankans í áraraðir. Spila þar góð samskipti og þekking á þörfum viðskiptavina lykilhlutverk. Á fyrirtækjasviði starfar fjöldi sérhæfðra einstaklinga með fjölbreytta menntun og áratugareynslu af fjármálastarfsemi. Framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs er Rúnar Magni Jónsson.

Large-madur-idnadarmadur-byggingar-krani-hvitt-bak.jpg

Sérhæfing í fyrirtækjaþjónustu

Einn af meginstyrkleikum fyrirtækjasviðs er að veita sérhæfða fjármálaþjónustu og þekkja þarfir og væntingar viðskiptavina sinna. Þekking starfsmanna á fjármálamörkuðum sem og reynsla úr atvinnulífinu eru mikilvægir þættir þegar kemur að ráðgjöf og þjónustu við viðskiptavini. Starfsemi sviðsins skiptist í þrjú sérhæfð teymi sem skilgreind eru eftir atvinnugreinum: fasteignir og orka, sjávarútvegur og verslun og þjónusta. Starfsfólk fyrirtækjasviðs á í góðu samstarfi við önnur svið bankans til að mæta þörfum og óskum viðskiptavina með skilvirkum og árangursríkum hætti.

Samfélagsábyrgð 

Arion banki setti fram skýra stefnu um samfélagsábyrgð árið 2016. Saman látum við góða hluti gerast er yfirskrift stefnunnar sem kristallast í að starfa með ábyrgum hætti í sátt við samfélag og umhverfi. Starfsfólk fyrirtækjasviðs hefur þá stefnu að leiðarljósi í öllum sínum störfum og leggur sitt af mörkum til upplýstrar umræðu og ákvarðanatöku. 

Þegar horft er til liðins árs hefur starfsfólk fyrirtækjasviðs meðal annars verið virkur þátttakandi á ráðstefnum um sjávarútveg, ferðaþjónustu, fasteignir og straumlínustjórnun. Arion banki var einn aðalstyrktaraðili sjávarútvegsráðstefnu sem haldin var í Hörpu á árinu og kom sjávarútvegsteymi fyrirtækjasviðs að ráðstefnunni með margvíslegum hætti ásamt því að standa fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um sjávarútveg í samstarfi við Intrafish.

Arion banki hefur í mörg ár verið öflugur stuðningsaðili nýsköpunar á Íslandi. Bankinn er meðal annars bakhjarl jarðvarmaklasans Iceland Geothermal sem unnið hefur ötullega að málum er tengjast jarðvarmanýtingu.

Þjónusta við stór fyrirtæki

Fyrirtækjasvið veitir öflugustu fyrirtækjum landsins margvíslega þjónustu. Sjávarútvegsteymið þjónar stærstu útgerðarfyrirtækjum landsins en viðskiptavinahópurinn samanstendur af öflugum félögum sem stunda veiðar, fiskvinnslu og sölu á sjávarafurðum. Teymið leiðir einnig útfærslu á stefnu bankans um fjármögnun á alþjóðlegum sjávarútvegsfyrirtækjum, bæði í tengslum við fjárfestingar íslenskra fyrirtækja en einnig beint til erlendra fyrirtækja. Markmiðið er að auka fjölbreytileika viðskiptavina í sjávarútvegi og þannig dreifa áhættu útlánasafns bankans í greininni. Á árinu tók Arion banki meðal annars þátt í alþjóðlegu sambankaláni, ásamt fjölda annarra fjármálafyrirtækja, sem snéri að fjármögnun eins stærsta fiskeldisfyrirtækis heims.

Sjávarútvegsteymið þjónar stærstu útgerðarfyrirtækjum landsins en viðskiptavinahópurinn samanstendur af öflugum félögum sem stunda veiðar, fiskvinnslu og sölu á sjávarafurðum.

Fasteignaverkefni voru áberandi á árinu líkt og fyrri ár. Þar má helst nefna framkvæmdir við stærri fjölbýlishús, stækkun fasteignasafna viðskiptavina bankans og framtíðarverkefni sem lúta að uppbyggingu hótela á höfuðborgarsvæðinu. Fasteigna- og orkuteymið fylgdi nokkrum langtímaverkefnum eftir á árinu, meðal annars í innviðauppbyggingu ýmiss konar, orkufrekum iðnaði og orkuframleiðslu. Teymið hefur verið í góðu samstarfi við fjárfestingarbankasvið við útfærslu á sérsniðnum lausnum umfangsmikilla verkefna viðskiptavina bankans og nýtt styrk og vöruframboð bankans þeim til hagsbóta.

Verslunar- og þjónustuteymið sinnir stærri viðskiptavinum í hinum ýmsu geirum, nefna má framleiðslu og iðnað, ferðaþjónustu, innflutning, smásölu, upplýsingatækni, fjárfestingar og vátryggingastarfsemi. Á árinu vann teymið að mörgum spennandi verkefnum sem meðal annars miðuðu að því að styðja við vöxt viðskiptavina sinna, ásamt því að bjóða nýja viðskiptavini velkomna. Áfram var lögð áhersla á alhliða þjónustu, jafnt útlán sem aðra virðisaukandi þjónustu eins og stafrænar þjónustuleiðir.

Rekstur

Vaxtaberandi eignir sviðsins námu í árslok 2018 um 288 milljörðum króna. Útlán til viðskiptavina voru um 279 milljarðar króna* eða sem nemur um 33,5% af heildarútlánum Arion banka til viðskiptavina og 65% af útlánum til fyrirtækja. Fyrirtækjasvið tók þátt í fjölbreyttum verkefnum viðskiptavina ásamt því að mynda tengsl við nýja aðila en um 7% af lánabók sviðsins eru lán sem veitt voru til nýrra viðskiptavina bankans árið 2018. 

Skipting lánasafns fyrirtækjasviðs eftir atvinnugreinum 31.12.2018
Skipting útlána til nýrra viðskiptavina eftir atvinnugreinum 31.12.2018

Lánasafn fyrirtækjasviðs endurspeglar helstu greinar atvinnulífsins sem er í takti við stefnu sviðsins. Stærstu atvinnugreinar í lánasafninu eru fasteignir og tengdur rekstur, 32,3%, sjávarútvegur, 20,9%, og verslun og þjónusta, 16,3%. Á liðnum árum hefur umfang ferðaþjónustunnar aukist verulega á Íslandi og er greinin orðin einn af máttarstólpum íslenska hagkerfisins, hvort sem litið er til hlutfalls vergrar landsframleiðslu eða hlutdeildar í hagvexti.

Vaxtaberandi eignir fyrirtækjasviðs sem tengjast fyrirtækjum í ferðaþjónustu með beinum hætti eru 7,8%.

Umhverfið og komandi tímar

Eftir mörg þróttmikil ár eru nú blikur á lofti í atvinnulífinu og margt bendir til þess að sigið sé á seinni hluta þess hagvaxtarskeiðs sem nú stendur yfir. Það hefur fyrst og fremst verið drifið áfram af miklum uppgangi í ferðaþjónustu sem hefur smitast yfir í aðrar atvinnugreinar, styrkt krónuna, stuðlað að þenslu á vinnumarkaði, auknum kaupmætti og fjölgun íbúa svo fátt eitt sé nefnt. Þrátt fyrir mikinn uppgang eru fá merki um vaxandi ójafnvægi í hagkerfinu.

Efnahagsbati síðustu ára kom fram á fjármálamarkaði, t.a.m. í formi lækkunar á innlendum skammtíma- og langtímavöxtum, lægra verðbólguálagi, betra lánshæfismati íslenska ríkisins og hagstæðari fjármögnun íslenskra fjármálafyrirtækja. Viðskiptavinir Arion banka hafa notið góðs af þessari þróun og hún hefur stuðlað að nýsköpun og fjárfestingu í atvinnulífinu. Þáttaskil urðu síðari hluta ársins og nú er hætt við að vaxta- og verðbólguþróun leiði til þess að hagkerfið hægi á sér, mögulega meira en tilefni er til. Hagfelld skilyrði á fjármagnsmarkaði haldast í hendur við stöðugleika í hagkerfinu. Grunnstoðir hagkerfisins eru styrkari en þær hafa verið um langt skeið sem birtist meðal annars í erlendri stöðu þjóðarbúsins og fjárhagsstöðu heimila, fyrirtækja og hins opinbera. Tækifæri til sköpunar í atvinnulífinu hafa sjaldan verið meiri og fjölbreyttari en um þessar mundir.

Grunnstoðir hagkerfisins eru styrkari en þær hafa verið um langt skeið sem birtist meðal annars í erlendri stöðu þjóðarbúsins og fjárhagsstöðu heimila, fyrirtækja og hins opinbera.

Á árinu 2019 mun starfsfólk fyrirtækjasviðs áfram taka þátt í að móta og styðja við stefnu bankans á sviði ábyrgra lánveitinga og fjárfestinga. Arion banki hefur fjármagnað margvísleg verkefni á liðnum árum og stigið fram á tímum óróa og lítillar bjartsýni. Við slíkar aðstæður reynir á yfirvegaða ákvörðunartöku og skynsamlegt val verkefna, samfélaginu öllu til hagsbóta. Þar skiptir máli að horfa til langs tíma og meta heildstætt áhrif verkefna á hagkerfið og atvinnulíf.