Birgjar

Í samræmi við það meginmarkmið í stefnu bankans að skapa verðmæti til framtíðar viðskiptavinum, hluthöfum, samstarfsaðilum og samfélaginu öllu til góða leitar bankinn í nærumhverfi sitt eftir þjónustu eins og frekast er unnt að því gefnu að birgjar standist kröfur um gæði og hagkvæmni.

Nær allir stærstu og mikilvægustu birgjar bankans starfa á Íslandi. Þrátt fyrir að aðfangakeðja bankans teygi sig út fyrir landsteinana er fyrsti hlekkur hennar oftast á heimamarkaði. Þannig er einungis einn erlendur birgi á meðal 10 stærstu birgja bankans og 10 á meðal þeirra 50 stærstu. Nokkur aukning varð í viðskiptum við erlenda birgja á árinu 2018 og tengist það kaupum á ráðgjöf erlendra sérfræðinga í tengslum við skráningu hlutabréfa bankans á markað og innleiðingu stórra hugbúnaðarlausna þar sem þekkingu skortir hér á landi.

Stærstur hluti erlendra birgja bankans tengist innkaupum á hugbúnaði, ráðgjöf og þjónustu tengdri upplýsingatækni. Vélbúnaður er því sem næst allur keyptur með milligöngu innlendra aðila.

Innkaup skiptast með eftirfarandi hætti á milli 50 stærstu birgja


Starfsfólk bankans leggur sig fram um að ástunda vönduð vinnubrögð. Er stöðluðu birgjamati beitt til að meta ýmis atriði í rekstri þeirra birgja sem bankinn á í viðskiptum við. Bankinn hefur innleitt spurningar um stöðu birgjanna í jafnréttismálum, jafnlaunamálum sem og umhverfismálum í birgjamatið. Staða birgja í þessum málum hefur því áhrif á það hversu viljugur bankinn er að ganga til viðskipta við viðkomandi aðila.