Upplýsingatæknisvið

Sviðið samanstendur af þremur deildum: Hugbúnaðarþróun, tæknistjórn og verkefnastofu. Jafnframt heyrir viðskiptaumsjón undir framkvæmdastjóra sviðsins. Framkvæmdastjóri sviðsins er Rakel Óttarsdóttir.

Large-kona-snjallsimi-heima-sofi-planta-lampi-gluggi-hvitt-bak.jpg

Gríðarlegur hraði og framfarir í stafrænni tækni knýja nú áfram nýsköpun í heiminum sem aldrei fyrr. Bankar, eins og önnur fyrirtæki, þurfa að endurhugsa sína starfsemi og tæknin gegnir þar lykilhlutverki. Banki framtíðarinnar verður ekki eins og bankar eru í dag. Arion banki hefur einsett sér að vera fremsti stafræni bankinn á Íslandi – veita þægilegustu bankaþjónustuna – með því að auka aðgengi viðskiptavina að stafrænum vörum og þjónustu bankans. Upplýsingatæknisvið gegnir lykilhlutverki í að hrinda þessari stefnu í framkvæmd. 

Fremsti stafræni bankinn

Arion banki er í dag fremsti stafræni bankinn á Íslandi og sýna kannanir að Arion appið er talið vera besta bankaappið. Notendum appsins fjölgaði um 20% á árinu. Jafnframt fjölgaði innskráningum í appið um 38% á árinu. Með tækninni mætum við viðskiptavinum okkar þegar og þar sem þeir óska. Tæknin auðveldar okkur að þekkja viðskiptavini, skilja þeirra þarfir og uppfylla þær. Við erum til staðar fyrir þá sem vilja sinna bankaviðskiptum heiman frá sér, t.d. í gegnum snjallsímann, og við erum til staðar fyrir þá sem vilja koma til okkar og hitta okkur í eigin persónu í einu af fjölmörgum útibúum bankans.

Við vinnum hörðum höndum að því að sjálfvirknivæða og einfalda allt verklag þannig að það verði sem fæst handtök í öllum ferlum, bæði fyrir viðskiptavini og starfsfólk bankans. Við nýtum gögn og greiningar til að taka góðar ákvarðanir og vinnum markvisst að því að hanna snjallar og skapandi lausnir sem viðskiptavinum okkar finnast spennandi.

Þægileg bankaþjónusta

Fjölmargar nýjar stafrænar þjónustur voru kynntar á árinu 2018. Á vef bankans er fjöldi nýrra lausna, t.d. rafræn núlán og bílafjármögnun. Einnig njóta viðskiptavinir heildstæðrar upplifunar um mánaðamót, svo sem flýtileiða til að greiða reikninga, millifæra og greiða inn á kreditkort, ráðstafa lausafé í sparnað og jafna útgjaldatoppa. Einnig er nú með einföldum hætti hægt að hefja reglulegan sparnað auk þess sem viðskiptavinir geta komið í viðskipti við einkabankaþjónustu og stundað hlutabréfaviðskipti á netinu.

Alþjóðleg lagasetning og öryggisstaðlar eru mikilvægur þáttur í bankaþjónustu. Sem dæmi má nefna lög gegn peningaþvætti, ný persónuverndarlög og öryggisstaðla fyrir kortaupplýsingar. Upplýsingatækni gegnir oftar en ekki stóru hlutverki í innleiðingu slíkra laga og staðla og býður það upp á tækifæri í stafrænni vegferð sem skilar sér í bættri þjónustu og auknu öryggi viðskiptavina.

Skilvirkt skipulag verkefna

Öll stærri upplýsingatækniverkefni eru unnin af þverfaglegum teymum sem eru samansett af starfsfólki af ýmsum sviðum bankans sem einvörðungu einbeitir sér að verkefni teymisins á verkefnatímanum. Minni verkefni eru unnin af umbótateymi sviðsins svo önnur verkefnateymi geti einbeitt sér að stærri verkefnum. Rík áhersla er á náið samstarf upplýsingatæknisviðs við önnur svið bankans í þeim tilgangi að bæta vörur og þjónustu bankans.

Deildir upplýsingatæknisviðs

Hugbúnaðarþróun hannar, þróar, samþættir og viðheldur lausnum með stafræna stefnu bankans að leiðarljósi ásamt því að þróa sterkar grunnstoðir sem framtíðarlausnir bankans byggja á.

Tæknistjórn ber ábyrgð á rekstri og öryggi upplýsingakerfa, daglegri þjónustu við notendur og tengslum við samstarfsaðila. Deildin stýrir öryggi og hönnun lausna, þróun gæðakerfis og vörustjórn kerfa með stafræna stefnu bankans að leiðarljósi.

Verkefnastofa sinnir stýringu þverfaglegra verkefna í takt við stafræna stefnu bankans. Verkefnin eru unnin af þverfaglegum teymum sem sitja saman og eru alfarið helguð verkefninu á verkefnatímanum.

Viðskiptaumsjón

Viðskiptaumsjón ber ábyrgð á frágangi viðskipta, s.s. útlána, innlána og verðbréfaviðskipta, og skjalastjórnun. Í því felst m.a. að tryggja rétta skráningu í kerfi bankans og fylgni við reglur um útfyllingu, vistun og umsýslu skjala. Megináherslur ársins 2018 voru að auka skilvirkni ferla, styðja við stafrænar lausnir bankans og bæta innra gæðaeftirlit sviðsins.