Stefnir

Stefnir hf. er stærsta sjóðastýringarfyrirtæki landsins með um 331 milljarð króna í virkri stýringu. Félagið er að fullu í eigu Arion banka og tengdra félaga og starfsstöðvar félagsins eru í höfuðstöðvum bankans. Eignir í stýringu félagsins eru í eigu fjölbreytts hóps fjárfesta, allt frá einstaklingum upp í stærstu fagfjárfesta landsins. Eignir sjóðfélaga eru ýmist í verðbréfa-, fjárfestingar- eða fagfjárfestasjóðum, auk þess sem Stefnir hefur gert samninga um stýringu á eignum nokkurra samlagshlutafélaga. Í árslok 2018 voru 21 starfsmaður hjá Stefni.

Eignir í stýringu
Milljarðar króna
Dreifing eignaflokka í stýringu er góð og tekjusamsetning félagsins í samræmi við markmið stjórnar.

Eignir í virkri stýringu lækkuðu á árinu um tæpa 16 milljarða króna eða úr tæpum 347 milljörðum króna í nær 331 milljarð króna. Munar þar mestu um útgreiðslur úr sérhæfðum afurðum í tengslum við lok fjárfestingarverkefna, innlausna í fjárfestingarsjóðnum Stefni ÍS-15 og minnkun Stefnis - Lausafjársjóðs. Stefnir – ÍS 15 er þrátt fyrir minnkun langstærsti innlendi hlutabréfasjóður landsins. Áhersla félagsins á uppbyggingu sérhæfðra fjárfestinga á síðustu árum skilar sér í fjölbreyttari tekjustoðum og hærri tekjuframlegð. Dreifing eignaflokka í stýringu er góð og tekjusamsetning félagsins í samræmi við markmið stjórnar.

Stefnir – Skuldabréfaval þrefaldaði stærð sína 2018

Verðtryggðar afurðir Stefnis nutu mestrar hylli fjárfesta á árinu 2018. Það sést bersýnilega á fjárfestingarsjóðnum Stefni – Skuldabréfavali sem inniheldur skuldabréf útgefin af fjölbreyttum útgefendum, svo sem opinberum aðilum, fyrirtækjum og fjármálastofnunum sem stækkaði úr 2,2 ma. kr. í 7 ma. kr. á árinu. Eignir sjóðsins voru við lok ársins 83% verðtryggðar. Ávöxtun skuldabréfasjóða Stefnis var með ágætum á árinu og styður vel við val World Finance Magazine á bestu eignastýringu á sviði skuldabréfa á Íslandi. 

Stefnir með bestu eignastýringu á Íslandi á sviði skuldabréfa annað árið í röð

Stefnir var verðlaunaður á árinu af breska fagtímaritinu World Finance Magazine fyrir bestu eignastýringu á Íslandi á sviði skuldabréfa. Verðlaunin eru viðurkenning á starfsemi fjárfestingarfyrirtækja sem náð hafa miklum árangri í starfi sínu þrátt fyrir áskoranir í síbreytilegu rekstrarumhverfi. Við veitingu verðlaunanna til Stefnis var m.a. horft til þátta er snúa að langtímaárangri, áhættustýringu og innri stjórnarháttum.

Ábyrgar fjárfestingar og hlutverk Stefnis

Hlutverk Stefnis er að stýra fjármunum í eigu viðskiptavina með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Ábyrgir, fjölbreyttir fjárfestingarkostir og ítarleg upplýsingagjöf eru lykilatriði í framkvæmd og sýnileika þeirrar samfélagsábyrgðar sem Stefnir vill sýna. Með því að taka tillit til umhverfismála, félagslegra þátta og góðra stjórnarhátta teljum við að við getum haft jákvæð áhrif á samfélag okkar, eigendum í sjóðum og öðrum haghöfum til góðs. Stjórn Stefnis setti stefnu um ábyrgar fjárfestingar sjóða Stefnis í desember 2018 og verður hún innleidd í starfsemi félagsins á árinu 2019.

Ábyrgir, fjölbreyttir fjárfestingarkostir og ítarleg upplýsingagjöf eru lykilatriði í framkvæmd og sýnileika þeirrar samfélagsábyrgðar sem Stefnir vill sýna. Stefna og stjórnarhættir

Starfsmenn félagsins og stjórn hafa lagt sig fram um að skilgreina kjarnahæfni félagsins og áherslur til næstu ára í stefnumótunarvinnu sinni á árinu. Stefna félagsins er skýr og stjórn hefur sett félaginu árangursmarkmið, sem mæld eru með reglubundnum hætti. Stjórn Stefnis hefur tileinkað sér góða stjórnarhætti og hefur einsett sér að stuðla að og styðja við ábyrga hegðun og fyrirtækjamenningu innan Stefnis, til hagsbóta fyrir alla hagsmunaaðila félagsins.

Félagið birtir árlega á heimasíðu sinni stjórnarháttayfirlýsingu þar sem greint er frá starfsemi félagsins og áherslum til næstu missera. Mikil áhersla er lögð á gagnsæi og endurspeglast það meðal annars í mikilli upplýsingagjöf á heimasíðu félagsins. Sú upplýsingagjöf er víðtækari en lög og reglugerðir mæla fyrir um.

Stefnir leiðandi í framtaksfjárfestingum á Íslandi

Stefnir hefur verið leiðandi í framtaksfjárfestingum og sérhæfðum afurðum á Íslandi um árabil. Þörfin fyrir fjölbreytta fjárfestingarkosti er augljós og hafa afurðir Stefnis mætt þessari eftirspurn með ábyrgum fjárfestingarkostum sem henta eignasöfnum fagfjárfesta. Stefnir rekur og stýrir bæði innlendum og erlendum framtakssjóðum og eru lífeyrissjóðir, tryggingarfélög og önnur fjármálafyrirtæki helstu eigendur sjóðanna. Á árinu var Festi selt N1 og lauk þar aðkomu SF V, félags í rekstri Stefnis, að Festi. Söluverðið var greitt með reiðufé og hlutbréfum í N1. Stefnir Íslenski Athafnasjóðurinn III keypti hlut í stál- og vélsmiðjunni Hamri og apótekum Lyfju.

Aðgengi að erlendum mörkuðum í gegnum sjóði Stefnis

Sérstaða Stefnis í stýringu erlendra hlutabréfasjóða er umtalsverð meðal innlendra fjármálafyrirtækja. Teymi sérfræðinga sem fylgist með efnahagsþróun og skráðum erlendum fyrirtækjum er reynslumikið og nálgun þess á stýringu sjóða hefur vakið athygli um langt skeið. Erlendir sjóðir í stýringu Stefnis eru ákjósanlegur kostur til áhættudreifingar fyrir innlenda fjárfesta og sparifjáreigendur.