Skapandi efnahagslíf

Eitt af helstu áhersluatriðum Arion banka varðandi samfélagsábyrgð er að stuðla að blómlegu og skapandi efnahagslífi hér á landi. Á undanförnum árum höfum við komið að fjölda spennandi fjárfestingarverkefna með viðskiptavinum okkar, m.a. með það að markmiði að efla atvinnulíf hér á landi. Þá höfum við lagt á það áherslu að þau félög sem eru í okkar eigu en í óskyldum rekstri sé eftir föngum komið í sem breiðast eignarhald og þau skráð í kauphöll. Arion banki hefur komið að flestum nýskráninga á markað á undanförnum árum og þannig stuðlað að því að endurreisa innlendan hlutabréfamarkað og fjölga fjárfestingarkostum á almennum markaði.

Fjármálakerfið er ein af grunnstoðum samfélagsins. Traust fjármálakerfi er mikilvægt til að ávaxta fé og fjármagna þau verkefni sem samfélagið vill ráðast í. Það er því nauðsynleg forsenda hagvaxtar og skiptir samfélagið allt máli.

Hlutverk okkar er að miðla fé frá sparifjáreigendum, fagfjárfestum og öðrum sem leita eftir ávöxtun, til heimila, athafnafólks og fyrirtækja sem þurfa á fjármögnun að halda til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Markmið okkar er að sinna hlutverki okkar vel og á ábyrgan og hagkvæman hátt. Við styðjum viðskiptavini okkar í þeirra verkefnum og hjálpum þeim að ná markmiðum sínum. Við leggjum okkur fram um að vera góður samstarfsaðili þegar kemur að fjárfestingum og fjármögnun, hvort sem um er að ræða fjölskyldubifreiðina, heimilið eða stærri fjárfestingar einstaklinga, fyrirtækja og opinberra aðila. Þannig leggjum við grunn að vexti og árangri viðskiptavina og stuðlum að aukinni fjárfestingu, framkvæmdum, hagvexti og skapandi efnahagslífi.

Arion banki var skráður á aðalmarkað Nastaq, hér á landi og í Svíþjóð 15. júní 2018, í kjölfar vel heppnaðs alþjóðlegs almenns útboðs þar sem 28,7% hlutur var seldur. Bankinn varð þar með fyrsti íslenski bankinn sem skráður er í íslenska kauphöll í yfir áratug og því um að ræða mikilvægt skref fyrir íslensk efnahagslíf.Arion banki var skráður á aðalmarkað Nastaq, hér á landi og í Svíþjóð 15. júní 2018, í kjölfar vel heppnaðs alþjóðlegs almenns útboðs þar sem 28,7% hlutur var seldur. Bankinn varð þar með fyrsti íslenski bankinn sem skráður er í íslenska kauphöll í yfir áratug og því um að ræða mikilvægt skref fyrir íslensk efnahagslíf.



Auk þess að styðja vel við íslenskt efnahagslíf með framangreindum hætti teljum við að hvatning til nýsköpunar hafi jákvæð áhrif á samfélagið og því leggjum við okkur fram um að styðja við frumkvöðla, meðal annars með því því að veita frumkvöðlum aðgengi að ráðgjöf og fjármagni og styðja fyrirtæki í rekstri til frekari vöruþróunar. List og hönnun eru einnig stór partur af því að skapa hér á landi efnahagslíf sem einkennist af sköpunarkrafti og nýsköpun og styður Arion banki markvisst við slíkt starf.

Stuðningur Arion banka við nýsköpun og virk þátttaka í uppbyggingu efnahagslífsins, auk ábyrgrar starfsemi, styður við tvö af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, það áttunda sem fjallar um góða atvinnu og hagvöxt (e. decent work and economic growth) og það níunda sem fjallar um nýsköpun og uppbyggingu (e. industry, innovation and infrastructure).

Nýsköpun 

Arion banki vinnur markvisst með og fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki.

Við trúum því að hvatning til nýsköpunar hafi jákvæð áhrif á samfélagið og því leggjum við okkur fram um að styðja við frumkvöðla, meðal annars með því því að veita frumkvöðlum aðgengi að ráðgjöf og fjármagni og styðja fyrirtæki í rekstri til frekari vöruþróunar. Arion banki vinnur markvisst með og fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki, sem og fjárfesta.

Frá árinu 2012 hefur fjárhagslegur stuðningur bankans í formi fjárfestinga í sprotafyrirtækjum og styrkja til ólíkra frumkvöðlaverkefna á Íslandi þróast með eftirfarandi hætti:

Fjárhagslegur stuðningur bankans
Milljónir króna


Með öflugri nýsköpun geta hugmyndir og þekking orðið að nýrri tækni, nýjum aðferðum eða jafnvel nýjum iðngreinum, hvort sem er innan þroskaðra fyrirtækja eða í frumkvöðlaumhverfinu. Öll viðleitni einstaklinga til nýsköpunar, uppbyggingar og nýrrar verðmætasköpunar er mikilvæg og við tökum slíka viðleitni alvarlega og íhugum vel hvort og hvernig við getum orðið að liði.

Við viljum skapa frjóan jarðveg og örvandi umhverfi fyrir nýsköpun og sprotafyrirtæki hér á landi. Arion banki býður upp á fjölbreyttar leiðir og fjármálalausnir til þess að styðja við einstaklinga og fyrirtæki til að ná markmiðum sínum til framtíðar. Þannig styður Arion banki við bakið á nýsköpun allt frá grunnskólastigi til háskólastigs og áfram út í atvinnulífið.

Vinsælir viðskiptahraðlar

Startup Reykjavík er stærsta nýsköpunarverkefni Arion banka en markmið verkefnisins er að skapa umhverfi þar sem frumkvöðlar njóta ráðgjafar og leiðsagnar reynslumikilla aðila í þeim tilgangi að gera hugmyndir sínar að veruleika og skapa þannig ný viðskiptatækifæri. 

Þátttökufyrirtækjum er boðið fjármagn í formi hlutafjár og og vinnuaðstöðu þar sem frumkvöðlar hafa tækifæri til að vinna saman, fá þjálfun og hitta einstaklinga úr frumkvöðlaumhverfinu á opnum viðburðum. Fyrirtækin fá einnig tækifæri til að kynna viðskiptahugmyndir sínar fyrir innlendum og erlendum aðilum bæði hvað varðar þróun hugmyndanna sem og mögulega framtíðarfjármögnun. Startup Reykjavík er að fullu í eigu Arion banka en viðskiptahraðallinn er rekinn í samvinnu við Icelandic Startups. Startup Reykjavík var valinn besti viðskiptahraðall á Norðurlöndunum árið 2015 og á Íslandi árin 2015, 2016,2017 og 2018 af Nordic Startup Awards.

Startup Energy Reykjavík (SER) er viðskiptahraðall sem byggir á sömu hugmyndafræði og Startup Reykjavík en þar er einblínt á verkefni og fyrirtæki í orkutengdum iðnaði og þjónustu. Verkefnið fór af stað vorið 2014 en þá tóku 7 fyrirtæki þátt. Vorið 2015 bættust önnur 7 fyrirtæki í hópinn sem og haustið 2016. SER er samstarfsverkefni Arion banka, Landsvirkjunar, GEORG, Nýsköpunarmiðstöðvar, Icelandic Startups og Iceland Geothermal. Arion banki er eigandi Startup Energy Reykjavik.

Fjöldi umsókna í viðskiptahraðlana tvo sýnir að mikil þörf er bæði fyrir sprotafjármagn og virka leiðsögn til frumkvöðlafyrirtækja. Arion banki fjárfestir í öllum þeim fyrirtækjum sem valin eru til þátttöku í viðskiptahröðlunum tveimur.

Uppsafnaður fjöldi fjárfestinga Arion banka í sprotafyrirtækjum
 

Fjármögnun fyrirtækja á sínum fyrstu stigum skiptir að jafnaði miklu máli. Fyrirtæki sem hafa farið í gegnum SR og SER hafa fengið viðbótarfjármögnun í kjölfar þátttöku sinnar í viðskiptahraðli. Í upphafi árs 2018 hafa fyrirtæki fengið fjármögnun sem nemur yfir 4.800 milljónum króna í hlutafé og styrki.

Virkni fyrirtækja á sprotastigi nokkrum árum eftir upphaf reksturs er allavega. Á meðan rekstur margra fyrirtækja dafnar stöðugt eiga mörg fyrirtæki erfitt uppdráttar eða hætta að fullu sinni starfsemi. Slík þróun er eðlileg og hangir meðal annars á þrautseigju frumkvöðlanna í bland við eftirspurn viðskiptavina auk fleiri þátta. Þegar horft er til virkni allra SR og SER fyrirtækja frá upphafi, má sjá hana í neðangreindri mynd.

Virkni fyrirtækja á sprotastigi nokkrum árum eftir upphaf reksturs
Fjöldi umsókna í Startup Reykjavík og Startup Energy Reykjavík
Fjármögnun SR og SER fyrirtækja eftir árgöngum


Haldið er utan um eignarhluta í þeim fyrirtækjum sem taka þátt í hröðlunum tveimur í gegnum Startup Reykjavik Invest ehf. og SER eignarhaldsfélag ehf. Í lok árs 2018 voru eignarhlutir í SR og SER fyrirtækjum verðmetnir á 379,8 milljónir króna.

Samstarf við European Investment Fund

Árið 2016 hóf Arion banki samstarf við European Investment Fund (EIF) og býður nú fjármögnun fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem hyggjast innleiða nýjungar í sinni starfsemi, hvort sem um er að ræða innleiðingu á nýjum vörum, ferlum eða þjónustu. Tilgangur samstarfsins er að veita fyrirtækjum aðgang að fjármagni á lægri vöxtum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og með því styðja við nýsköpun og örva atvinnulíf, rannsóknir og þróun. Lánin eru ætluð litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem hyggjast fjárfesta í:

  • Nýrri framleiðslu
  • Innleiðingu á nýjum vörum, ferlum eða þjónustu
  • Þróun
  • Nýrri aðferðafræði
  • Tækni

EIF-sjóðurinn ábyrgist hluta lánsins sem Arion banki veitir og viðskiptavinir bankans njóta ávinnings samstarfsins í lægri vaxtakjörum.
European Investment Fund er sjóður í eigu European Investment Bank, en sjóðurinn er í samstarfi við 74 fjármálafyrirtæki í 29 löndum Evrópu. Arion banki er eina fjármálafyrirtækið á Íslandi sem er í samstarfi við EIF.

Hluthafi í sprota- og vaxtasjóðnum Eyrir Sprotar

Arion banki er í samstarfi við Eyri Invest um rekstur sprota- og vaxtarsjóðsins Eyrir Sprotar slhf. Eyrir Invest og Arion banki eru stærstu hluthafar sjóðsins en á árinu 2016 bætti bankinn við fjárfestingu sína í sjóðnum sem nemur nú tæpum 1,3 milljörðum króna.

Aldrei of snemmt að byrja

Arion banki er einn af aðalstyrktaraðilum Nýsköpunarkeppni grunnskólanna en keppnin er ætluð nemendum í 5.-7. bekk. Alls bárust um 1200 hugmyndir í keppnina árið 2018 og voru 26 valdar úr til að keppa um bestu hugmyndina.

Jafnframt er bankinn einn af aðalbakhjörlum Ungra frumkvöðla, Junior Achievement á Íslandi. Samtökin hafa það hlutverk að búa ungt fólk undir framtíðina og auka færni þess til atvinnuþátttöku og atvinnusköpunar með því að stuðla að aukinni nýsköpunar-, frumkvöðla- og viðskiptamennt í framhaldsskólum. Þannig er frumkvöðlastarf kynnt fyrir framhaldsskólanemum með það að markmiði að efla frumkvöðlaanda meðal ungmenna og þjálfa frumkvöðla framtíðarinnar. Árið 2018 tóku á sjötta hundrað nemenda í þrettánframhaldsskólum þátt og er útlit fyrir að fjöldinn verði enn meiri á næstu árum. Markmiðið er að gefa meirihluta íslenskra nemenda færi á að kynnast frumkvöðlastarfi af eigin raun í námi sínu. Arion banki er einn fjögurra öflugra bakhjarla verkefnisins.

Stuðningur við nýsköpun á flestum stigum samfélagsins

Við lítum svo á að með stuðningi við nýsköpun á hinum ýmsu stigum menntunar og þroska fyrirtækja séum við að hlúa að framtíðinni og stuðla að enn fjölbreyttara atvinnulífi hér á landi þegar fram líða stundir.

Arion banki styður þannig markvisst við nýsköpun frá grunnskólastigi til atvinnulífs.

Nýsköpun innan Arion

Arion banki hefur lagt mikla áherslu á stafræna þróun í fjármálaþjónustu og tekið forskot í þeim efnum. Nýsköpun og þróun á vörum og þjónustu bankans á sér stað í innri viðskiptahraðli sem ber heitið Stafræn framtíð. Bankinn hefur verið opinn með þá aðferðafræði sem stuðst er við þegar kemur að þróun og innleiðingu stafrænnar fjármálaþjónustu og stafrænar lausnir bankans hlutu nokkur alþjóðleg verðlaun á árinu.

Myndlist og hönnun 

Reglulega stendur Arion banki fyrir listasýningum og fyrirlestrum um myndlist og hönnun í höfuðstöðvum sínum. Bankinn á nú um 1.250 listaverk eftir marga af merkustu listamönnum þjóðarinnar og eru þau sýnileg í útibúum og á öðrum starfsstöðvum bankans.

Í mars fór hluti af HönnunarMars fram í höfuðstöðvum bankans í þriðja sinn, en árið 2016 var gerður samstarfssamningur milli Arion banka og Hönnunarmiðstöðvar Íslands um aðkomu bankans að þessari stóru hönnunarhátíð. Þá var DesignMatch haldið í höfuðstöðvum Arion banka sem hluti af HönnunarMars. Þar var um nokkurs konar kaupstefnu að ræða þar sem íslenskum hönnuðum var gefið tækifæri til að hitta erlenda kaupendur og framleiðendur og kynna hugmyndir sínar og hönnun.

Á sama tíma var opnuð sýningin Önnur sæti, en á henni voru sýndar verðlaunatillögur að þekktum byggingum á Íslandi, hugmyndir sem hlutu viðurkenningu í arkitektasamkeppnum en ekki var byggt eftir. Sýningin var unnin í samstarfi við Önnu Dröfn Ágústsdóttur sagnfræðing og Guðna Valberg arkitekt auk þess sem teikningar grafíska hönnuðarins Viktoriu Buzkina hjá Hvíta húsinu spiluðu stórt hlutverk í sýningunni. Gefin var út ítarleg sýningarskrá og var mjög góð aðsókn á sýninguna.

Sumarið 2018 var sett upp sýning á listaverkum úr safneign bankans í höfuðstöðvunum og í nóvember opnaði svo sýningin Eftir kúnstarinnar reglum. Á henni var teflt saman verkum fimm listamanna sem fæddust í kringum aldamótin 1900 og teljast til svokallaðra naívista eða einfara í myndlist, og svo fjögurra listamanna sem fæddir eru á 8. og 9. áratug síðustu aldar. Sýningin var opnuð með vel sóttum fyrirlestri Aldísar Arnardóttur listfræðings sem hún nefndi Sögumenn endurminninga og ævintýraheima.

Nokkur verk hafa bæst við safneignina á árinu. Má þar nefna stórt málverk eftir Þorvald Jónsson og útsaumað verk eftir Loja Höskuldsson, bæði verk sem voru sérstaklega gerð fyrir sýninguna Eftir kúnstarinnar reglum.

Bankinn lánar reglulega verk úr safneigninni á sýningar bæði hér á landi og erlendis. Meðal annars átti bankinn nokkur verk á sýningunni Einskismannsland – Ríkir þar fegurðin ein? sem haldin var í Listasafni Reykjavíkur og í haust var verk eftir Nínu Tryggvadóttur lánað á sýninguna Alls konar landslag í Skaftfelli, myndlistarmiðstöð Austurlands.

Á árinu 2018 gaf bankinn nokkur verk úr safneigninni, m.a. til Listasafns Fjallabyggðar, en þar var um að ræða verk sem höfðu tilheyrt útibúi bankans á Ólafsfirði og á Siglufirði.