Virðing fyrir umhverfinu

Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru ein af helstu áskorunum samtímans og umhverfismál eru ofarlega á baugi hjá okkur í Arion banka. Við viljum tryggja heildstætt yfirlit yfir þau umhverfisáhrif sem starfsemi okkar kann að hafa og lágmarka neikvæð áhrif. 

Large-kona-amma-barnabarn-strakur-bustadur-blom-plontur-grodursetning-hvitt-bak.jpg

Við höfum ýtt úr vör margs konar verkefnum til að ná markmiðum okkar auk þess sem stafræn þjónusta skipar stóran sess í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfseminni en ekki síður meðal viðskiptavina okkar. Þá hefur verið lögð áhersla á að fræða starfsfólk um umhverfis- og loftslagsmál.

Arion banki undirritaði loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar í nóvember 2015 og hefur frá árinu 2016 birt umhverfisuppgjör bankans og á það einnig við í ár. Í yfirlýsingunni er lögð áhersla á að fyrirtæki dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda, minnki myndun úrgangs, mæli árangurinn og gefi reglulega út upplýsingur um stöðu ofangreindra þátta.

Frá árinu 2015 hefur Arion banki verið í samstarfi við nýsköpunarfyrirtækið Klappir grænar lausnir á sviði umhverfismála og innleitt heilstæða hugbúnaðarlausn frá þeim, Klappir Core, þar sem upplýsingum er streymt inn kerfið frá frá gagnalindum með rafrænum hætti. Klappir grænar lausnir votta jafnframt uppgjör bankans.

Með því að leita leiða til að draga úr neikvæðum áhrifum starfseminnar á umhverfið og minnka losun gróðurhúsalofttegunda styður Arion banki við þrettánda Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir í loftslagsmálum (e. climate action). Einnig styður bankinn með aðgerðum sínum viðmið sjö til níu sem snúa að umhverfismálum í Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð fyrirtækja, UN Global Compact, en Arion banki hefur verið aðili að sáttmálanum frá árslokum 2016.

Með því að leita leiða til að draga úr neikvæðum áhrifum starfseminnar á umhverfið og minnka losun gróðurhúsalofttegunda styður Arion banki við þrettánda Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir í loftslagsmálum (e. climate action).

Umhverfismarkmið okkar eru að:

 • Flokka úrgang frá bankanum eins og hægt er hverju sinni.

 • Fara sparlega með orku í starfsemi okkar.

 • Nýta umhverfisvænar lausnir við prentun pappírs með nýrri tækni.

 • Hvetja og styðja starfsfólk til að hafa umhverfismál að leiðarljósi í starfi og heima fyrir.

 • Velja umhverfisvæna vöru og/eða þjónustu við innkaup þar sem því verður við komið.

 • Stefna að aukinni hlutdeild pappírslausra viðskipta.

 • Draga úr sóun.

Helstu þættir í umhverfisuppgjöri Arion banka fyrir árið 2018 og markmið fyrir árið 2019

Umhverfisuppgjör Arion banka fyrir árið 2018 er að finna í samantekt á ófjárhagslegum upplýsingum. Gögn og upplýsingar í uppgjörinu gilda fyrir árið 2018 og tengjast meginstarfsemi Arion banka, dótturfélög standa því utan uppgjörsins. Gögn frá árunum 2015, 2016 og 2017 eru sett fram til samanburðar.

Á sama tíma og bætt var við fleiri gagnastraumum fyrir árið 2018 var ákveðið að endurreikna gögn fyrir tímabilið 2015 til og með 2017. Af þessu hlýst ákveðið misræmi ef uppgjör þetta er borið saman við fyrri umhverfisuppgjör.

Á árinu 2018 var samanlögð losun gróðurhúsalofttegunda 466 tCO2 ígildi sem er aukning frá árinu 2017 en þá var heildarlosun 325 tCO2 ígildi, ef ekki er tekið tillit til landbóta. Að hluta til skýrist þessi aukning á því að nú höfum við náð enn betri tökum á upplýsingum um starfsemina sem nýttar eru í umhverfisuppgjör bankans en á árinu 2018 bættust m.a. við upplýsingar um millilandaflug, flugferðir verktaka á vegum bankans, leigubílaferðir og gagnaeyðingu. Skýringuna má þó einnig rekja til aukins fjölda flugferða m.a. vegna skráningar bankans á markað á árinu, bæði á Íslandi og í Svíþjóð. Losunin í umfangi 3 var 307 tCO2 ígildi á árinu 2018 í stað 146 tCO2 ígilda á árinu 2017. Á árinu 2019 verður fylgst náið með þróun flugs og kapp lagt á draga úr umfangi 3 um a.m.k. 3% á milli áranna 2018 og 2019.

Losun gróðurhúsalofttegunda
tCO2í


Ágætisárangur hefur náðst í að draga úr útblæstri vegna dísil- og bensínbíla í starfseminni (umfang 1). Árið 2017 var losunin 85,1 tCO2 ígildi en fór niður í 78,3 tCO2 ígildi á árinu 2018. Áfram verður unnið að því að draga úr útblæstri vegna bílaflotans með innkaupum á vistvænni bílum þegar kostur er og þar með draga úr losun um að lágmarki 3% á milli ára.

Losun gróðurhúsalofttegunda vegna ferða starfsfólks til og frá vinnu var ekki tekin inn í uppgjörið. Ætlunin er að þessi umhverfisþáttur verði reiknaður inn í uppgjörinu fyrir árið 2019. 

Eldsneytisnotkun
Lítrar


Góður árangur hefur náðst í að draga úr losun vegna notkunar á raforku og heitu vatni (umfang 2). Losunin árið 2017 var um 94 tCO2 ígildi en á árinu 2018 var hún komin niður í rúm 81 tCO2 ígildi. Ástæðuna má helst rekja til breytinga á útibúaneti bankans. Notkun á köldu vatni hefur þó aukist úr 73.971 rúmmetrum árið 2017 í 89.894 rúmmetra árið 2018 en ástæðan fyrir þeirri aukningu er óþekkt.

Sérstök áhersla hefur verið á það hjá bankanum að ná vel utan um myndun úrgangs, flokkun, að minnka hlutfall almenns úrgangs og að auka endurvinnsluhlutfallið. Nú hefur verið náð vel utan um heildarmagn úrgangs, frá öllum þjónustuaðilum bankans, og af þeim sökum hækkar talan á milli ára. Heildarmagn úrgangs árið 2018 var 145.763 kg en það var 125.519 árið 2017. Flokkunar- og endurvinnsluhlutfallið er komið í 67% en var á síðasta ári um 52%. Markmið bankans er að ná hlutfalli endurvinnslu í að lágmarki 75% árið 2020.

Hlutfall flokkaðs úrgangs


Við notum umhverfisvænar lausnir við prentun pappírs og umhverfisvænan pappír. Pappírsnotkun dróst saman um tæp 26% á milli áranna 2017 og 2018.

Heildarmagn prentaðs pappírs
Bls.


Arion banki hefur til margra ára styrkt Skógræktarfélag Íslands, bæði í skógrækt og fræðslu til almennings. Arion banki styrkti Skógræktarfélagið sem fyrr árið 2018. Hluti styrkveitingarinnar fór í ræktun á skógi í eignarlandi Skógræktarfélagsins á Úlfljótsvatni í Grafningi og hluti í verkefnið Skógarvist, skógargátt og lýðheilsa en verkefninu er ætlað að hvetja til útivistar og bættrar lýðheilsu.

Áhugaverðar staðreyndir um umhverfismál Arion banka

 • Samgöngustyrkir hafa verið veittir starfsfólki frá árinu 2012. Með samgöngustefnu sinni leggur Arion banki sitt af mörkum til að bæta heilsu starfsfólks og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá bifreiðum. Markmið samgöngustefnu bankans er að auka nýtingu starfsfólks á vistvænum og hagkvæmum ferðamáta. Með vistvænum samgöngum er átt við allan ferðamáta til og frá vinnu annan en einkabílinn, s.s. að ganga, hjóla, fá far með öðrum eða ferðast með almenningssamgöngum. Á árinu 2018 nýttu rúmlega 25% starfsfólks sér samgöngustyrk bankans einhvern hluta úr ári.

 • Í ársbyrjun 2019 var gerð samgöngukönnun á meðal alls starfsfólks sem verður endurtekin árlega. Niðurstöður könnunarinnar verða nýttar til að hvetja starfsfólk áfram í að nýta sér vistvænan samgöngumáta.

 • Samið hefur verið við þjónustuaðila um að senda vistvæna leigubíla í allar ferðir á vegum bankans þegar kostur er á.

 • Við höfum dregið verulega úr notkun einnota plasts í starfsemi Arion banka, m.a. með bættum ferlum í mötuneyti í höfuðstöðvum og með innleiðingu á kælikerfi fyrir fjölnota vatnsflöskur úr gleri. Þá höfum við samið við fjölda birgja um að tryggja að aðföng berist í fjölnota plastbökkum í stað einnota plastumbúða. Árið 2019 verður áfram unnið að því að draga úr einnota plastnotkun.

 • Síðustu tvö ár hefur Arion banki verið einn af aðalstyrktaraðilum árvekniátaksins Plastlaus september og hefur vakið athygli á átakinu í útibúum, á ytri vef bankans og á samfélagsmiðlum. Með þátttökunni vill Arion banki hvetja viðskiptavini sína og samfélagið allt til að draga úr notkun á einnota plasti.
   
 • Árið 2018 stofnaði Skjöldur, starfsmannafélag Arion banka, umhverfishóp. Hópurinn stóð meðal annars fyrir fræðslu fyrir starfsfólk um skaðsemi plasts í umhverfinu.

 • ISS Ísland og Hreint ræsting sjá um þrif fyrir Arion banka um land allt. Bæði þessi fyrirtæki hafa skýra stefnu um umhverfis- og gæðamál og hafa hlotið Svansvottun fyrir sína starfsemi.

 • Við höfum farið í vitundarvakningu um matarsóun í mötuneytinu í höfuðstöðvum bankans og allur matur sem til fellur af diskum starfsfólks er mældur daglega. Góður árangur hefur náðst en meðaltalsmatarsóun á mánuði hefur lækkað frá 279 kg á mánuði árið 2016 þegar mælingar hófust niður í 230 kg árið 2018. Sjá niðurstöður hér fyrir neðan.

 • Við hvetjum viðskiptavini okkar til að hugsa sig tvisvar um áður en þeir prenta út tölvupósta frá okkur.

 • Nýtt birgjamat var unnið á árinu 2017 þar sem mat er lagt á stefnu birgja í samfélags- og umhverfismálum. Matinu er ætlað að meta áhrif innkaupa bankans á samfélag og umhverfi auk annarra þátta sem bankinn horfir til við mat á birgjum. Þar er m.a. horft til þess hvort viðkomandi fyrirtæki hafi sett sér stefnu í umhverfis- og jafnréttismálum og hvort unnið sé að því að draga úr neikvæðum áhrifum starfsemi fyrirtækisins á umhverfið.

 • Arion banki, fyrstur íslenskra fyrirtækja, fjárfesti í sérstökum búnaði í mötuneyti bankans í höfuðstöðvum sem umbreytir lífrænum úrgangi í þykkni sem auðvelt er að geyma án áhættu í nokkrar vikur. Þykknið sem losað er úr tankinum verður notað til framleiðslu á umhverfisvænni orku, t.d. biogas og biodísil. Notkun þessa búnaðar hófst síðla árs 2017 og fækkaði verulega heimsóknum sorpþjónustuaðila til bankans vegna lífræns úrgangs.

 • Arion banki hefur sett sér það markmið að vera fremsti stafræni bankinn á Íslandi. Bankinn hefur þannig aukið aðgengi viðskiptavina að stafrænum vörum og þjónustu. Áherslur bankans á stafræna þjónustu og umhverfisvernd eiga góða samleið þar sem stafræn þjónusta dregur verulega úr pappírsnotkun auk þess sem viðskiptavinir hafa möguleika á að sinna bankaviðskiptum sínum þegar og þar sem þeim hentar án ferðalaga í bankaútibú. Þá hvetur Arion banki viðskiptavini sína til að afpanta útprentun þeirra yfirlita, reikninga og annars sem hægt er.

 • Bílafjármögnun Arion banka býður 50% afslátt af lántökugjöldum við fjármögnun vistvænna bíla. Með því að bjóða betri kjör við kaup á vistvænum bílum styður Arion banki viðskiptavini sína í þeirri vegferð að nota vistvænni orkugjafa og þar með menga minna. 

 • Árið 2018 voru gerðar breytingar á lánareglum bankans þar sem m.a. kemur fram að við mat á áhættu vegna lánveitinga skuli eftir föngum horft til þátta sem snúa að samfélagsábyrgð og sjálfbærni. Með samfélagsábyrgð og sjálfbærni er átt við stjórnarhætti fyrirtækja og áhrif þeirra á umhverfi og samfélag.

 • Á árinu 2018 fór fram vinna hjá eignastýringu fagfjárfesta Arion banka við að kortleggja og greina öll fyrirtæki sem eru skráð á aðalmarkað hér á landi út frá frammistöðu við að upplýsa um stöðu sjálfbærni og samfélagsábyrgðar, þ.m.t. umhverfis- og loftslagsmála.
Matarsóun
Kg.