Árið 2018 var mikilvægt ár í sögu Arion banka. Um árabil hefur verið unnið að uppbyggingu bankans eftir það áfall sem reið yfir íslenskt fjármálakerfi og samfélag fyrir um 10 árum. Frá upphafi var markmiðið að byggja upp góðan banka sem þjónar sínum viðskiptavinum vel og er í fararbroddi í íslensku fjármálakerfi og efnahagslífi. Banka sem með tíð og tíma yrði góður fjárfestingarkostur og skráður í kauphöll. Það er því einstaklega ánægjulegt að á árinu 2018 fór fram vel heppnað alþjóðlegt almennt hlutafjárútboð þar sem hlutabréf í bankanum voru boðin alþjóðlegum og innlendum fjárfestum. Í kjölfarið var Arion banki skráður á aðallista Nasdaq Iceland og Nasdaq Stockholm. Mikilvægur áfangi og góður vitnisburður um þann mikla árangur sem náðst hefur á undanförnum 10 árum.

Frá stofnun Arion banka hefur verið ljóst eignarhald bankans myndi taka breytingum. Frá árinu 2010 átti íslenska ríkið 13% og Kaupþing 87%, í gegnum dótturfélag sitt Kaupskil, og markmið beggja var að selja sinn hlut þegar fram liðu stundir. Á árinu 2017 tók Kaupþing fyrsta skrefið í að draga úr eignarhlut sínum og seldi um 30% hlut í bankanum.

Snemma árs 2018 voru næstu skref tekin í umbreytingu á eignarhaldi bankans þegar m.a. íslenska ríkið seldi allan sinn hlut í bankanum. Varð Arion banki þar með alfarið í einkaeigu á meðan helstu samkeppnisaðilar bankans eru að fullu í eigu íslenska ríkisins.

Skráning í kauphöll á Íslandi og í Svíþjóð

Stærsti áfanginn verður þó að teljast vel heppnað alþjóðlegt almennt hlutafjárútboð þar sem seld voru um 30% í bankanum til innlendra og alþjóðlegra fjárfesta. Áhugi erlendra fjárfesta á Arion banka var umtalsverður og fór svo að alþjóðlegir fjárfestar keyptu um 70% af þeim hlutabréfum sem seld voru í útboðinu.

Í kjölfarið var Arion banki skráður á aðallista hjá Nasdaq Iceland og Nasdaq Stockholm. Var um að ræða næststærstu skráningu á Íslandi frá upphafi og þá næststærstu í kauphöllinni í Stokkhólmi það sem af var ári. Arion banki varð þar með fyrsta íslenska fjármálafyrirtækið til að vera skráð á aðallista kauphallar í rúman áratug. Þetta er mikilvægur árangur fyrir bankann og nokkuð sem hafði verið stefnt að lengi.

Arion banki varð þar með fyrsta íslenska fjármálafyrirtækið til að vera skráð á aðallista kauphallar í rúman áratug.

Eignarhald bankans er í dag vel dreift á milli innlendra og alþjóðlegra fjárfesta. Jafnframt er nær allt starfsfólk bankans hluthafar eftir að hafa fengið hlutabréf í bankanum í kjölfar skráningar hans.

Vaxandi efnahagslíf

Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með uppgangi íslensks efnahagslífs á undanförnum árum. Hagvöxtur hefur verið góður og hefur tekist einstaklega vel að vinna úr þeirri erfiðu stöðu sem var uppi fyrir um 10 árum. Skuldastaða íslenska ríkisins, fyrirtækja og heimila er betri en hún hefur verið um árabil og samkeppnishæfni landsins góð.

Ferðaþjónustan hefur gegnt mikilvægu hlutverki í vexti efnahagslífsins og hefur vöxtur hennar verið hraður á undanförnum árum. Ljóst er að ákveðnar áskoranir fylgja svo hröðum vexti og voru þær nokkuð áberandi á árinu, sérstaklega í flugrekstri. Eðlilegt er eftir svo kröftugt vaxtartímabil að það þurfi að hægja á og endurmeta markmið og framtíðarsýn. Áfram er útlit fyrir vöxt í ferðaþjónustunni og í hagkerfinu öllu þó að hægt hafi á og því óhætt að segja að horfur í íslensku efnahagslífi séu jákvæðar.

Sterk fjárhagsstaða

Arion banki er fjárhagslega sterkur og vel í stakk búinn til að styðja við vöxt og viðgang efnahagslífsins eins og er hans hlutverk.

Rekstur bankans á hverju ári frá stofnun hefur verið arðsamur. Regluleg starfsemi bankans á árinu 2018 gekk vel fyrir utan erfiðleika á mörkuðum og í flugrekstri sem höfðu neikvæð áhrif á afkomu bankans og arðsemi á árinu. Unnið er að því með markvissum hætti að ná fram aukinni skilvirkni og markmiðum um a.m.k. 10% arðsemi á eigið fé. Það er metnaðarfullt markmið og til að ná því mun bankinn leggja aukna áherslu á skilvirkni og arðsemi fremur en vöxt.

Unnið er að því með markvissum hætti að ná fram aukinni skilvirkni og markmiðum um a.m.k. 10% arðsemi á eigið fé.

Kröfur til fjármálafyrirtækja og eftirlit með þeim er mun meira en á árum áður. Má í því sambandi til dæmis nefna hertar eiginfjárkröfur og kröfur um laust fé. Eigið fé Arion banka nemur í dag um 200 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall bankans sem er 22% og vogunarhlutfall bankans sem er 14,2% uppfyllir vel þær kröfur sem Fjármálaeftirlitið gerir til bankans. Bankanum ber jafnframt skylda til að upplýsa um stórar áhættuskuldbindingar þar sem slíkar skuldbindingar geta haft áhrif á styrk og afkomu bankans. Skemmst er frá því að segja að engar stórar áhættuskuldbindingar eru í bókum Arion banka í árslok 2018. Lánasafn bankans er vel dreift á milli einstaklinga og fyrirtækja annars vegar og svo á milli atvinnugreina hins vegar.

Starfsumhverfið

Nýlega stóðu stjórnvöld að útgáfu hvítbókar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið á Íslandi. Þar er velt upp ýmsum hliðum á fjármálastarfsemi og er bókin góður umræðugrundvöllur um framtíðarskipan fjármálakerfisins hér á landi. Mikilvægt er að góð sátt virðist hafa myndast um öll helstu grundvallaratriði í uppbyggingu kerfisins og þess ekki að vænta að neinar neikvæðar breytingar fylgi í kjölfarið.

Ákveðin vonbrigði eru þó að ekki hafi verið sterkar að orði kveðið varðandi afnám sértækra álagna á bankakerfið og þá sérstaklega bankaskattsins, sem við teljum mikilvægt jafnréttismál. Bankaskatturinn, sem er í raun skattlagning á innlán og skuldabréfafjármögnun íslenskra fjármálafyrirtækja, er um 10 sinnum hærri á Íslandi en tíðkast hjá þeim fáu Evrópulöndum sem leggja á slíkan skatt. Sambærilegir skattar eru því ekki lagðir á önnur fjármálafyrirtæki sem starfa á hinum sameiginlega evrópska fjármálamarkaði.

Bankaskatturinn, sem er í raun skattlagning á innlán og skuldabréfafjármögnun íslenskra fjármálafyrirtækja, er um 10 sinnum hærri á Íslandi en tíðkast hjá þeim fáu Evrópulöndum sem leggja á slíkan skatt.

Bankaskatturinn bjagar stórlega samkeppnisumhverfið og veldur í raun markaðbresti. Í honum felst að það er m.a. verið að hygla erlendum bönkum sem bjóða í auknum mæli sína þjónustu hér á landi sem og innlendum lífeyrissjóðum sem bjóða sínum sjóðfélögum íbúðalán á kjörum sem bankarnir geta ekki keppt við sökum álagna og krafna sem á þá eru lagðar en lífeyrissjóðir eru undanskildir.

Þegar samkeppnisstaðan er ójöfn með þessum hætti er grafið undan bankakerfinu og samkeppnisaðilum þess og hvers kyns skuggabankastarfsemi hyglt. Við hefðum því viljað sjá sterkar að orði kveðið hvað varðar afnám skattsins og lítum á það sem réttlætismál að þessi skattur verði afnuminn hraðar en fyrirhugað er.

Samfélagsábyrgð

Arion banki sýnir samfélagsábyrgð í verki með því að gera viðskiptavinum gagn og sinna hlutverki sínu sem fjármálafyrirtæki af kostgæfni og ábyrgð. Nú sem aldrei fyrr skiptir máli að einstaklingar, félög og fyrirtæki taki mið af þörfum ólíkra hagsmuna í sinni starfsemi og horfi til samfélagsins í heild sem og umhverfismála, ekki síst þar sem loftslagsmál verða æ brýnna viðfangsefni okkar allra. Við sem fjármálafyrirtæki gerum okkur vel grein fyrir okkar ábyrgð gagnvart okkar starfsfólki, viðskiptavinum, hluthöfum, samstarfsaðilum og samfélaginu og viljum hafa jákvæð áhrif á okkar umhverfi og þau verkefni sem okkar viðskiptavinir taka sér fyrir hendur.

Arion banki hefur frá árinu 2014 verið aðili að Jafnréttissáttmála UN Women og UN Global Compact. Á árinu 2016 varð bankinn aðili að UN Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna um innleiðingu ábyrgra starfshátta, og frá árslokum 2017 hefur bankinn einnig verið aðili að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN PRI).

Stefna Arion banka

Á árinu 2018 var ráðist í endurskoðun á stefnu bankans. Í öllum aðalatriðum er stefna bankans óbreytt, þ.e. markaður bankans er áfram fyrst og fremst á Íslandi og bankinn veitir viðskiptavinum sínum, einstaklingum, fjárfestum og fyrirtækjum, alhliða fjármálaþjónustu. Hins vegar er aukin áhersla á samkeppnishæfni og skilvirkni sem og stafræna þjónustu og jákvæða upplifun viðskiptavina. 

...aukin áhersla á samkeppnishæfni og skilvirkni sem og stafræna þjónustu og jákvæða upplifun viðskiptavina.

Dótturfélög bankans gegna áfram mikilvægu hlutverki í heildarsýn bankans og þjónustuframboði. Stefnir, sem er stærsta sjóðastýringarfyrirtæki landsins, er mikilvægur þáttur í þjónustu bankans og Vörður tryggingar gegnir æ mikilvægara hlutverki í stefnu og tekjumyndum bankans. Góð reynsla er af samstarfi við Stefni og sjáum við mikil tækifæri í frekari þróun á samstarfi Arion banka og Varðar, fyrir félögin sjálf og viðskiptavini þeirra.

Valitor, sem er eitt helsta greiðslumiðlunarfyrirtæki landsins, hefur verið í mikilli sókn erlendis og á árinu voru 70% tekna félagsins vegna starfsemi erlendis. Er nú svo komið að fyrirtækið er með aðsetur í þremur löndum og starfsmenn þess eru um 400. Vegna þess hve stórt fyrirtæki Valitor er í dag, alþjóðlegra áherslna í starfsemi fyrirtækisins og áforma um frekari vöxt sem kalla á umtalsverða fjárfestingu hefur Arion banki ákveðið að setja Valitor í söluferli og er stefnt að því að selja félagið að hluta eða í heild á árinu 2019.

Traustur grunnur til að byggja á

Arion banki byggir í dag starfsemi sína á traustum grunni. Bankinn nýtur sterkrar stöðu á þeim mörkuðum sem hann starfar á og er í forystu þegar kemur að stafrænni fjármálaþjónustu. Stafræn þjónusta og aukin sjálfvirkni er mikilvægur þáttur í að auka bæði skilvirkni starfseminnar og tekjur. Það er skýrt markmið að halda áfram á þessari braut, auka skilvirkni og samkeppnishæfni bankans, svo fjárhagsleg markmið náist.

Ég þakka stjórnendum og starfsfólki bankans þeirra framlag til árangurs bankans á árinu 2018. Lagður hefur verið traustur grunnur fyrir áframhaldandi uppbyggingu og árangur.