Efnahagsumhverfið

Íslenskt hagkerfi lét spár um hægari efnahagsumsvif árið 2018 sem vind um eyru þjóta og blés byrlega í segl þjóðarskútunnar. Mjúku lendingunni virðist hins vegar ekki hafa verið afstýrt, aðeins frestað, eins og ýmsar vísbendingar bera með sér.

Large-folk-konur-menn-stolar-tafla-taflmenn-hvitt-bak.jpg

Nokkuð hægði á innlendri eftirspurn, verðbólgan þokaðist yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans þegar leið á árið og bera fór á aukinni spennu á vinnumarkaði. Þrátt fyrir aukin umsvif innanlands var innflutningsvöxtur óverulegur og var framlag utanríkisverslunar til hagvaxtar jákvætt. Talsverður afgangur var af utanríkisviðskiptum, enda hafa aldrei fleiri ferðamenn sótt landið heim.

Rekstrarerfiðleikar í flugrekstri settu hins vegar svip sinn á efnahagslífið, sem endurspegluðust í snarpri veikingu krónunnar, stígandi verðbólguvæntingum og aukinni svartsýni á síðari hluta ársins. Húsnæðismarkaðurinn hóf vegferð sína í átt að jafnvægi en íbúðauppbygging var á miklu skriði og húsnæðisverðshækkanir voru hóflegar. Eins og alltaf eru áhættuþættir til staðar, þeir helstu snúa að ferðaþjónustunni, sem hefur fest sig í sessi sem undirstöðuatvinnugrein, og vinnumarkaðnum, en harðar kjaraviðræður eru gengnar í garð sem geta stuðlað að ójafnvægi í þjóðarbúskapnum.

Hagvöxtur umfram væntingar

Talsverður kraftur var í hagkerfinu árið 2018, sem jafnframt var áttunda árið á yfirstandandi hagvaxtarskeiði, og mun meiri en væntingar stóðu til í upphafi árs. Líkt og undanfarin ár var einkaneyslan dráttarklár hagvaxtar en utanríkisverslun lagði einnig hönd á plóg. Verulega hægði á fjárfestingavexti eftir því sem leið á árið og munaði þar mestu um samdrátt í atvinnuvegafjárfestingu, sem hefur verið driffjöðurin í fjárfestingavexti síðustu ára. Sömu sögu má segja af öðrum undirliðum landsframleiðslunnar, þar sem verulega hefur hægt á vextinum. Engu að síður hefur landsframleiðslan aukist, sem má fyrst og fremst rekja til samdráttar í vöruinnflutningi. Heildarútflutningur hefur þannig aukist umfram heildarinnflutning svo framlag utanríkisverslunar til hagvaxtar var jákvætt. Þrátt fyrir að óvissan hafi aukist og blikur séu á lofti stendur hagkerfið styrkum fótum og efnahagshorfur góðar samanborið við önnur ríki.

Hagvöxtur
%
Heimild: Hagstofa Íslands
*Fyrstu níu mánuðir ársins
Hagvaxtarhorfur á árunum 2018-2019
Spá AGS
Heimild: Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Viðskiptaafgangurinn heldur velli, raungengið lækkar

Á árunum eftir fjármálahrunið studdi lágt raungengi við útflutningsgreinar Íslands. Á síðustu árum hefur þróunin hins vegar snúist við og hátt raungengi dregið hratt úr samkeppnishæfni þjóðarbúsins. Bróðurpart ársins var raungengið mjög hátt og var svo komið að Ísland átti vísan aðgang að efstu sætunum yfir dýrustu lönd í heimi, hvort sem litið var til verðlags eða launa. Þegar líða fór á haustið urðu ákveðin kaflaskil og lækkaði raungengið skarpt sökum nafngengisveikingar krónunnar. Svo fór að raungengið var að meðaltali 3% lægra en árið áður, miðað við verðlag.

Innflutningsvöxtur á árinu dró dám af lægra raungengi og hægari vexti þjóðarútgjalda og vó samdráttur í vöruinnflutningi að miklu leyti upp mikla aukningu í þjónustuinnflutningi. Útflutningsvöxtur mældist nokkuð meiri, en hafa ber í huga að sjómannaverkfallið í upphafi árs 2017 litar mjög samanburð milli ára. Ljóst er að ferðaþjónustan er komin yfir mesta vaxtarskeiðið, að minnsta kosti í bili, sem skýrir hægari útflutningsvöxt samanborið við fyrri ár. Árið 2018 var aftur á móti gjöfult fyrir vöruútflutning, sem endurspeglast meðal annars í minnkandi vöruskiptahalla. Afgangur af viðskiptum við útlönd hefur þar af leiðandi haldið velli, þrátt fyrir lægra flug ferðaþjónustunnar.

Raungengi íslensku krónunnar
Heimild: Seðlabanki Íslands
Viðskiptajöfnuður
% af VLF
Heimildir: Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands.
* Fyrstu níu mánuði ársins


Árið 2018 var enn eitt metárið í komum erlendra ferðamanna, en alls lögðu rúmlega 2,3 milljónir manna leið sína til landsins, sem samsvarar 5,5% aukningu frá árinu áður. Þetta er minnsti ársvöxtur ferðaþjónustunnar frá því að uppgangstímabilið hófst, eða frá árinu 2010, og eitt skýrasta merki þess að greinin sé komin yfir mesta vaxtarkúfinn. Birtingarmynd hás raungengis er ennþá skýrari þegar horft er til neyslumynsturs ferðamanna, sem hefur tekið breytingum eftir því sem landið varð dýrari áfangastaður. Þrátt fyrir hægari vöxt er ferðaþjónustan engu að síður burðarás í útflutningsvextinum, enda mikilvægasta útflutningsgrein þjóðarinnar.

Fjöldi ferðamanna og vægi ferðaþjónustunnar
Fjöldi og vægi í útflutningi
Heimildir: Ferðamálastofa, Hagstofa Íslands.
* Fyrstu níu mánuðir ársins

Ókyrrð í flugferð krónunnar

Eftir þægilega og tilbreytingarsnauða flugferð krónunnar frá miðju ári 2017 tók að bera á ókyrrð þegar líða tók á haustið 2018. Fregnir af erfiðleikum í flugrekstri innlendra flugfélaga höfðu veruleg áhrif á gjaldeyrismarkaðinn, enda stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein þjóðarbúsins í húfi. Aðrir þættir áttu þó einnig hlut að máli, s.s. veruleg gjaldeyriskaup vörsluaðila innlends sparnaðar og lítil eftirspurn eftir krónum frá erlendum aðilum. Svo fór að krónan veiktist um rúm 13% gagnvart Bandaríkjadal, 6,4% gagnvart breska pundinu og 7,2% gagnvart evrunni á árinu. Til að sporna gegn óhóflegri veikingu krónunnar innan dags greip Seðlabankinn þrisvar inn í á gjaldeyrismarkaðnum, fyrir samtals 3,3 milljarða króna, en fram að því hafði hann staðið á hliðarlínunni í tæpt ár.

Í kjölfar veikingar krónunnar og lækkandi raunvaxta sá Seðlabankinn sér leik á borði og lækkaði bindiskylduna á fjármagnsinnstreymi á skuldabréfamarkað og hávaxtainnistæður úr 40% niður í 20%. Áhrifin létu hins vegar á sér standa og hélt krónan áfram að veikjast, enda horfur á því að bindiskyldan verði lækkuð enn frekar á yfirstandandi ári. Þá er stefnt að því að losa eftirstandandi aflandskrónueignir og hin svokallað snjóhengja verður því brátt úr sögunni.

Gengi krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum
Heimild: Seðlabanki Íslands

Gamlar vættir gera vart við sig

Síðastliðin ár hefur sterk króna og aukin samkeppni haldið aftur af innlendum verðbólguþrýstingi og vegið á móti húsnæðisverðshækkunum. Þáttaskil urðu á árinu 2018 þegar allir undirliðir vísitölu neysluverðs lögðust á sömu sveif og fór verðbólgan yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans, í fyrsta skipti í fjögur ár. Verðbólgan mældist að meðaltali 2,7% árið 2018, en sé húsnæðisliðurinn undanskilinn var hún nokkuð minni, eða 0,9% að meðaltali yfir árið. Töluverð óvissa er um verðbólguhorfur á komandi mánuðum, nú þegar hörð kjarabarátta er gengin í garð á vinnumarkaði og áhrif gengisveikingarinnar á síðasta ársfjórðungi ekki að fullu komin fram.

Samhliða stígandi verðbólgu tók að losna um kjölfestu verðbólguvæntinga. Á síðari hluta ársins höfðu verðbólguvæntingar hækkað á alla mælikvarða og sá peningastefnunefnd Seðlabankans sig nauðbeygða til að hækka vexti í nóvember. Meginvextir bankans stóðu því í 4,5% um áramót. 

Undirliðir verðbólgu eftir eðli og uppruna
Áhrif á vísitölu neysluverðs
Heimild: Hagstofa Íslands

Vopnin brýnd á vinnumarkaði

Fregnir af yfirstandandi kjarabaráttu og hvössum yfirlýsingum beggja vegna samningaborðsins skyggðu á fréttir af hagfelldum aðstæðum á vinnumarkaði, þrátt fyrir að af nógu væri að taka. Kaupmáttur launa jókst, heildarvinnustundum fjölgaði og atvinnuleysi mældist að meðaltali um 2,7% árið 2018. Atvinnuleysi er þar af leiðandi ennþá vel undir langtímameðaltali sínu, lægra en það atvinnustig sem Seðlabankinn telur samræmast stöðugri verðbólgu, og ber þess því skýrt merki að ennþá sé spenna í þjóðarbúskapnum. 

Engu að síður er ýmislegt sem bendir til þess að spennan á vinnumarkaði sé aðeins að slakna, ef litið er fram hjá kjaradeildum. Hægt hefur á vexti vinnuaflseftirspurnar, hópuppsagnir hafa verið fyrirferðamiklar, hlutfall fyrirtækja sem búa við skort á vinnuafli hefur lækkað og hærra hlutfall fyrirtækja áformar að fækka starfsfólki á næstu mánuðum en áður. Vinnumarkaðurinn er engu að síður sterkur í alþjóðlegum samanburði og sveigjanleikinn umtalsverður. Hingað til hefur verulegur innflutningur vinnuafls, sérstaklega á síðastliðnum árum, létt á þrýstingi á innlenda framleiðsluþætti og haldið aftur af launahækkunum.

Atvinnuleysi og kaupmáttur launa
Ársmeðaltal atvinnuleysis og ársbreyting kaupmáttar launa
Heimild: Hagstofa Íslands

Gulir, rauðir og grænir eignamarkaðir

Innlendir eignamarkaðir áttu misjöfnu gengi að fagna á árinu og var þungbúið yfir innlendum hlutabréfamarkaði, þriðja árið í röð. Árið byrjaði ágætlega og hækkaði markaðurinn fram að byrjun sumars. Eftir því sem leið á árið og rekstrarvandi í flugrekstri ílengdist, lækkaði hlutabréfamarkaðurinn flugið og lauk árinu þannig að Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,3% milli ára. Þá gerðist það í fyrsta skipti í átta ár að heildarviðskipti með hlutabréf drógust saman milli ára, eða um 19% frá 2017. Tvö félög voru tekin til viðskipta á aðallista Nasdaq Ísland. Heimavellir var tekið til viðskipta í lok maí og Arion banki var skráður tvíhliða, á Íslandi og í Svíþjóð, í júní. Á First North markaðnum var ein skráning þegar Kvika banki var tekinn til viðskipta í mars sl.

Húsnæðismál hafa verið sett á oddinn í yfirstandandi kjarabaráttu, enda hækkaði húsnæðisverð snarpt á árinu 2017, og mun meira en laun. Samanborið við stormasamt 2017 mætti segja að stilla hafi ríkt á húsnæðismarkaðnum á síðastliðnu ári. Verulega hægði á húsnæðisverðshækkunum og fór árstakturinn á höfuðborgarsvæðinu lægst í 3,9% á haustmánuðunum. Aukið framboð hefur temprað verðhækkanir og mun eflaust gera það áfram, enda verulegt byggingarmagn í pípunum og útlit fyrir að aldrei hafi verið byrjað á jafnmörgum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu. Þá eru ýmis teikn á lofti um að sífellt meiri kraftur sé að færast í íbúðafjárfestingu og að laun muni hækka umfram húsnæðisverð, sem þýðir að markaðurinn er sjálfur að leiðrétta sig og leita í nýtt jafnvægi.

Þrátt fyrir hert lánaskilyrði bæði innlánsstofnana og lífeyrissjóða hafa skuldir heimilanna tekið að hækka á ný, samhliða auknum útlánavexti. Undir lok árs hafði til dæmis útlánastofn til heimilanna stækkað um 7% að nafnvirði. Útlánavöxtur er hins vegar ennþá hóflegur samanborið við aðrar hagstærðir, þrátt fyrir miklar eignaverðshækkanir undanfarin ár.

Auglýstar fasteignir til sölu og húsnæðisverð
Ársfjórðungsleg gögn, fjöldi og breyting milli ára
Heimild: Seðlabanki Íslands, Þjóðskrá Íslands
Útlán lánakerfis til heimila
Breyting milli ára
Heimild: Seðlabanki Íslands
* Fyrstu tíu mánuðir ársins

Íbúðafjárfesting dregur vagninn

Samsetning og vöxtur fjárfestingar tók miklum breytingum á árinu. Atvinnuvegafjárfesting dróst saman á fyrstu níu mánuðum ársins, og dró þar af leiðandi fjárfestingavöxtinn verulega niður, enda vegur hún þyngst. Það var viðbúið að vöxtur atvinnuvegafjárfestingar yrði lítill sem enginn, enda lengi legið fyrir að fjárfesting í stóriðju og raforkuframleiðslu myndi dragast saman. Samdráttur í hefðbundinni atvinnuvegafjárfestingu á þriðja ársfjórðungi kom hins vegar nokkuð á óvart og verður að teljast skýrasta merkið um kólnun í hagkerfinu. Á sama tíma og atvinnuvegafjárfesting hefur gefið eftir hefur íbúðafjárfesting spýtt í lófana eftir ládeyðu eftirhrunsáranna og stóð hún undir bróðurparti fjárfestingavaxtarins á árinu, enda hvatinn til nýbyggingar til staðar og mikill þrýstingur frá almenningi og stjórnvöldum á að hraða uppbyggingu.

Þrátt fyrir að hægt hafi á fjárfestingavextinum var fjárfesting engu að síður yfir langtímameðaltali sínu sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Þetta eru jákvæð tíðindi fyrir hagkerfið í heild sinni og skapar sterkari grundvöll fyrir hagvöxt og tekjuöflun í framtíðinni.

Fjárfesting
Hlutdeild einstakra liða í breytingu frá fyrra ári
Heimild: Hagstofa Íslands
* Fyrstu níu mánuðir ársins

Stöðugur horfur í ríkisrekstri

Litlar breytingar urðu á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs á árinu. Matsfyrirtækið Moody‘s breytti horfunum fyrir lánshæfiseinkunn ríkissjóðs úr jákvæðum í stöðugar í júlí, á meðan S&P og Fitch Ratings staðfestu óbreyttar lánshæfiseinkunnir með stöðugum horfum. S&P og Fitch meta lánshæfi ríkissjóðs fyrir langtímaskuldbindingar A, á meðan Moody‘s metur lánshæfiseinkunnina A3 fyrir langtímaskuldbindingar. 

Samkvæmt endurmati á fjárlögum fyrir árið 2018 mun afkoma ríkissjóðs nema tæplega 34 milljörðum króna á árinu, sem er nokkuð meiri afgangur en lagt var upp með í fjárlögum og skýrist meðal annars af lægri vaxtagjöldum en áður var áætlað. Ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lagði fram fjárlagafrumvarp í upphafi hausts þar sem gert er ráð fyrir tæplega 29 milljarða króna afgangi og að aðhald í ríkisrekstri slakni. Engu að síður er áætlað að skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu haldi áfram að lækka og verði komnar niður fyrir 25% í árslok 2019. 

Heildarjöfnuður ríkissjóðs
Ma.kr.
Heimildir: Hagstofa Íslands, Fjármála- og efnahagsráðuneytið
* Að frátöldum óreglulegum og einskiptis tekju- og útgjaldaliðum