Stuðningur við samfélagið

Arion banki kemur að og heldur fjölda fræðslufunda, ráðstefnur og viðburði og er þannig virkur þátttakandi í samfélaginu. Yfir 12.400 gestir sóttu fræðslufundi, ráðstefnur og aðra viðburði á vegum bankans á árinu 2018 og auk þess tók bankinn þátt í fjölmörgum ráðstefnum og sýningum utan bankans.

Large-kona-madur-bru-likan-hvitt-bak.jpg

Dæmi um viðburði árið 2018

  • Jón Jónsson fræddi á annað hundrað framhaldsskólanema um fjármál.

  • Um þúsund manns mættu á fundi greiningardeildar bankans sem haldnir voru í höfuðstöðvum bankans og víða á landsbyggðinni. Stærstu fundir greiningardeildarinnar voru einnig sendir út í beinni útsendingu á Facebook.

  • Fjöldi viðskiptavina og annarra gesta sótti fræðslufundi um lífeyrissparnað á vegum bankans. Í samstarfi við Veru Center var haldinn fundur á ensku um réttindi og skyldur í lífeyrismálum fyrir erlent fólk sem býr og starfar hér á landi.

  • Fjöldi blaðamannafunda á vegum HSÍ fór fram í húsakynnum Arion banka á árinu.

  • Vísitala félagslegra framfara (e. Social Progress Index) var kynnt í Arion banka. Þar var m.a. farið yfir stöðu Íslands í samanburði við önnur lönd varðandi félagslegar framfarir og mikilvægi Heimsmarkmiða SÞ.

  • Arion banki var einn af aðalstyrktaraðilum vel heppnaðrar Sjávarútvegsráðstefnu sem haldin var í Hörpu. Á ráðstefnunni kynnti starfsfólk bankans niðurstöður greininga á sjávarútveginum og tók þátt í pallborðsumræðum.

  • Reglulega stendur Arion banki fyrir listasýningum og fyrirlestrum um myndlist og hönnun í höfuðstöðvum sínum. Bankinn á nú um 1.250 listaverk eftir marga af merkustu listamönnum þjóðarinnar og eru þau sýnileg í útibúum og á öðrum starfsstöðvum bankans.

  • Fjárfestadagur Startup Reykjavík var haldinn í höfuðstöðvum Arion banka í sjöunda sinn.

  • Lokaumferð í samkeppni Ungra frumkvöðla (Junior Achievement á Íslandi) fór fram í höfuðstöðvum Arion banka þar sem 20 nemendafyrirtæki kepptu til verðlauna.

  • Um eitt þúsund háskólanemar heimsóttu bankann í vísindaferðum með það að markmiði að kynna sér starfsemi bankans.

  • Bíbí, Blaki og Ari úr Sparilandi mættu á bæjarhátíðir víða um land, á Arion banka fótboltamótið, á barnahátíðina Kátt á Klambra þar sem Arion banki var aðalstyrktaraðili hátíðarinnar og fleiri skemmtilega viðburði. 

Stuðningur og samstarf til góðra verka

  • Arion banki á í samstarfi við fjölda félagasamtaka og fyrirtækja og styður til góðra verka. Bankinn er meðal annars bakhjarl Hönnunarmiðstöðvar, Handknattleikssambands Íslands, Íþróttasambands fatlaðra, Nýsköpunarkeppni grunnskólanna og hluti af Ólympíufjölskyldu ÍSÍ. Að auki styðja útibú bankans um land allt hin ýmsu málefni í sinni heimabyggð.

  • Arion banki er bakhjarl Hönnunarmiðstöðvar Íslands samkvæmt þriggja ára samstarfssamningi frá árinu 2016. Samstarfið felur meðal annars í sér stuðning bankans við HönnunarMars, sem er einn aðalvettvangur Hönnunarmiðstöðvar til að koma íslenskri hönnun og hugviti á framfæri. Þá var DesignMatch haldið í höfuðstöðvum Arion banka sem hluti af HönnunarMars. Þar var um nokkurs konar kaupstefnu að ræða þar sem íslenskum hönnuðum var gefið tækifæri til að hitta erlenda kaupendur og framleiðendur og kynna hugmyndir sínar og hönnun.

  • Bankinn er hluti af Ólympíufjölskyldu ÍSÍ en fjölskyldan styður dyggilega við bak Íþróttasambands Íslands með það að markmiði að efla íslenskt íþróttalíf og þátttöku Íslands á erlendum vettvangi.

  • Arion banki er einn af aðal bakhjörlum Íþróttasambands fatlaðra og styður undirbúning og þátttöku sambandsins á Ólympíumóti fatlaðra í Tókýó 2020.

  • Arion banki er einn af megin styrktaraðilum HSÍ en bankinn hefur um árabil stutt við íslenskan handknattleik.

  • Arion banki styrkir Skógræktarfélag Íslands. Styrkurinn felur meðal annars í sér stuðning við framkvæmd verkefnisins “Skógarvist, Skógargátt og lýðheilsa”, en verkefninu er ætlað að hvetja til útivistar og þar með bættrar lýðheilsu. Einnig nýtist styrkurinn til skógræktar.

  • Á árinu skrifaði bankinn undir samstarfssamning við Ferðafélag Íslands, en bankinn verður aðalsamstarfsaðili og bakhjarl Ferðafélags Íslands næstu þrjú árin. Arion banki mun leggja Ferðafélagi Íslands lið til góðra verka á fjöllum, m.a. til uppbyggingar göngustíga og fjallaskála ferðafólki til heilla. Þá mun bankinn einnig styðja við eflingu öryggismála á fjöllum, náttúruvernd og fleiri samfélagslegra verkefna Ferðafélagsins.

  • Á árinu endurnýjaði Arion banki þriggja ára samning við Knattspyrnufélagið Víking vegna Arion banka mótsins í fótbolta. Árlega mæta um 2.500 stúlkur og drengir í Víkina og taka þátt í Arion banka mótinu, þar sem sum hver eru að stíga sín fyrstu skref á fótboltamóti.

  • Árvekniátakið Plastlaus september var haldinn í annað sinn á árinu 2018. Arion banki veitti átakinu stuðning auk þess að hvetja starfsfólk sitt og viðskiptavini til að draga úr notkun einnota plasts eins og hægt er. Átakið rímar vel við umhverfisstefnu bankans sem m.a. miðar að því að draga úr plastnotkun.

  • Að auki styðjum við veglega við fjölda góðgerðamála á borð við Krabbameinsfélag Íslands, Rauða krossinn og Mæðrastyrksnefnd auk þess sem útibú bankans á landsbyggðinni styðja við fjölbreytt íþrótta- og menningarstarf í heimabyggð sinni.