Vörður

Vörður tryggingar hf. er alhliða vátryggingafélag sem býður hagkvæmar tryggingalausnir á samkeppnishæfu verði fyrir einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki. Fjöldi starfsfólks í árslok 2018 var 94 í 87 stöðugildum og fjöldi viðskiptavina liðlega 60.000.

Árið 2018 var fyrsta heila starfsár Varðar eftir sameiningu við Okkar líf. Sameiningin og úrvinnsla hennar gekk vel, umtalsverð samlegðaráhrif hafa náðst fram og stendur Vörður sterkari fótum en áður, með sterkara þjónustuframboð og öflugan hóp starfsfólks innanborðs.

Á árinu var unnið að fjölmörgum áhugaverðum verkefnum og má í því sambandi nefna að lokahönd var lögð á umfangsmikið stefnumótunarverkefni, húsnæði félagsins í Borgartúni var endurskipulagt og fjölmörg stærri þróunar- og umbótaverkefni fóru í gang.

Stór hluti starfsfólks kom að þeirri stefnumótunarvinnu sem unnin var undir leiðsögn innlendra ráðgjafa, ásamt stjórnarfólki Varðar trygginga og Varðar líf. Helsta niðurstaða verkefnisins var að halda kjarna stefnunnar óbreyttum og hafa viðskiptavininn áfram í öndvegi með því að leggja höfuðáherslu á góða þjónustu þar sem hagsmunir viðskiptavina eru hafðir að leiðarljósi. Með því að auka val viðskiptavina og fjölga samskiptaleiðum og leiðum til sjálfsafgreiðslu ætlum við að gera þjónustu okkar þægilegri fyrir viðskiptavini. Markmið til lengri tíma er að viðskiptavinum standi til boða mismunandi leiðir til samskipta við félagið, hvenær sem er sólarhringsins, allan ársins hring. 

Arion banki, eigandi Varðar, hefur verið leiðandi í þróun stafrænna lausna á sínum markaði. Þróunin á tryggingamarkaði hefur verið heldur hægari en á bankamarkaði en er nú hafin af fullri alvöru. Stefna Varðar er að bjóða viðskiptavinum framsæknar stafrænar lausnir sem gera þeim meðal annars kleift að kaupa tryggingar hvenær sem er sólarhringsins. Þá verður viðskiptavinum jafnframt gert kleift að tilkynna tjón og sinna öðrum vátryggingaviðskiptum á stafrænan máta. Hyggst félagið leggja stóraukna áherslu á nýtingu gagna í starfseminni en slík áhersla mun án efa styrkja þjónustuna. Samstarf við Arion banka verður áfram þróað með það að leiðarljósi að viðskiptavinir samstæðunnar njóti góðs af. Sem fyrr verður lögð mikil rækt við þróun og þjálfun starfsfólks.

Framangreindar breytingar á skrifstofu félagsins í Borgartúni fólu í sér að gera húsnæðið þannig úr garði að það tæki mið af þörfum viðskiptavina og starfsfólks og að sköpuð yrði nútímaleg, björt og hagkvæm aðstaða.

Á árinu var unnið ötullega að innleiðingu nýrra persónuverndarlaga sem tóku gildi um mitt síðasta ár. Lögin hafa talsverð áhrif á daglega starfsemi Varðar og fór því mikil vinna í undirbúning og innleiðinguna. Hópur starfsfólks með utanaðkomandi sérfræðingi vann að innleiðingunni sem lauk formlega í desember. Sérstakt persónuverndarráð hefur verið stofnað en það mun funda reglulega og vinna áfram að persónuverndarmálum hjá Verði. Persónuverndarfulltrúi er samnýttur með Arion banka en hans hlutverk verður fyrst og fremst að hafa eftirlit með þessum málaflokki.

Gæða- og öryggismál skipa stóran sess hjá Verði sem er ekki síst mikilvægt vegna þess mikla hraða og öru breytinga sem eru í starfsumhverfinu. Mikil áhersla hefur verið á eftirlitsþáttinn og þá helst á aukna skýrslugerð til að tryggja fylgni við verklagsreglur og ferla. Félagið hefur unnið mjög markvisst í upplýsingaöryggismálum og hefur verið með vottun samkvæmt ISO 27001: 2013 frá árinu 2016.

Samfélagsábyrgð

Félaginu hefur um langt skeið verið umhugað um umhverfismál og samfélagsábyrgð. Á síðasta ári var í fyrsta sinn sett fram sjálfbærniskýrsla og var hún unnin í samræmi við ESG viðmið Nasdaq með tilvísun í Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (UN SDG), GRI (Global Reporting Initative) og UN Global Compact. Vörður var eitt af 104 fyrirtækjum sem undirrituðu loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar í nóvember 2015. Loftslagsyfirlýsingin miðar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, minnka myndun úrgangs, mæla árangurinn og gefa reglulega út upplýsingar um stöðu ofangreindra þátta. Ýmislegt hefur verið gert tengt loftslagsmálunum. Samningur hefur verið gerður við Kolvið um kolefnisjöfnun á allri losun félagsins og þar með talið losun vegna ferða starfsfólks til og frá vinnu en þær voru um 56% af allri losun félagsins árið 2017. Félagið tók ákvörðun um að fara úr bensín- og dísilbílum yfir í rafmagnsbíla á árinu en afhendingu þeirra seinkaði til ársins 2019. Úrgangur hefur verið flokkaður frá því 2011 og markvisst er stefnt að aukinni og betri flokkun. Á fyrri hluta ársins var samið við fyrirtækið Maul um að halda utan um pantanir starfsfólks á hádegismat. Maul semur við fjölda veitingastaða og getur starfsfólk valið um nokkra rétti daglega og pantað í lok vikunnar hádegismat fyrir næstu viku. Þetta hefur mælst afar vel fyrir hjá starfsfólki og gerir það að verkum að matarsóun minnkar til muna. Þá daga sem afgangur er mikill er haft samband við Samhjálp sem sækir afgangana og nýtir fyrir sína skjólstæðinga.

Vörður hefur skýra sýn og stefnu í jafnréttismálum. Stefnan og áætlunin tryggir sanngirni, jöfn tækifæri og kjör alls starfsfólks óháð kyni, aldri, kynþætti, trú eða öðrum slíkum þáttum. Hvers kyns mismunun á grundvelli kynferðis eða annarra þátta er í andstöðu við jafnréttisstefnu félagsins sem og jafnréttislög. Vörður hlaut jafnlaunavottun á árinu 2014, fyrst allra fjármálafyrirtækja. Frá þeim tíma hefur félagið unnið markvisst að jafnlaunamálum og viðhaldið og þróað það kerfi sem innleitt var og árlega hlotið vottun sem er staðfesting þess að unnið er af heilindum eftir þeirri stefnu sem sett hefur verið.

Rekstur og afkoma

Reksturinn gekk heilt yfir bærilega á liðnu ári. Segja má að það séu þrjár meginstoðir undir rekstrinum, skaðatryggingar, persónutryggingar og fjármálastarfsemi. Skaðatryggingareksturinn var fremur erfiður á árinu en batnaði þó heldur frá árinu á undan. Hér vegur þyngst að afkoma ökutækjatrygginga hefur verið í járnum undanfarin ár. Það gildir bæði um skyldutryggingar og frjálsar ökutækjatryggingar. Launahækkanir undanfarinna ára koma nú að fullu inn í uppgjör líkamstjóna sem gerð eru upp samkvæmt skaðabótalögum. Þá hefur bílafloti landsmanna endurnýjast mikið á undanförnum árum og er umtalsvert dýrara að gera við þá tæknilega flóknu bíla sem nú aka um göturnar.

Persónutryggingar sem reknar eru undir merkjum Varðar líf gengu sérlega vel, annað árið í röð. Áhersla er lögð á að halda þeirri leiðandi stöðu sem Vörður líftryggingar hefur á markaðnum og verður lögð rækt við vöruþróun, innleiðingu stafrænna lausna og annað sem þjónað getur kröfum viðskiptavina.

Afkoma af fjármálastarfsemi var í ágætu samræmi við áætlanir fyrir árið en á sama tíma var hún umtalsvert lægri en árið á undan.

Verkefnin fram undan

Vörður hefur stækkað mikið á undanförnum árum. Viðskiptavinir félagsins eru vel á sjöunda tug þúsunda og eðlilega hefur starfsfólki félagsins fjölgað í takt við það. Áherslur fyrir árið 2019 snúa að því að þróa lausnir og þjónustu til samræmis við óskir viðskiptavina. Þannig er unnið að því að koma fram með nýjar stafrænar lausnir en markmiðið er ekki að Vörður verði í einu og öllu stafrænt félag, það er mikilvægt að finna rétta blöndu af stafrænum leiðum og persónulegri þjónustu. Þá verða mörg þeirra verkefna sem urðu til í stefnumótun félagsins til úrvinnslu á næstu mánuðum. Í reglubundnum rekstri og afkomu skiptir mestu að ná bættri niðurstöðu í rekstri skaðatrygginga og vegur þar þyngst að ná bættri afkomu í flokki ökutækjatrygginga og verður áfram unnið að leiðum til að styrkja þann flokk.

Framtíðarhorfur

Vörður hefur notið mikillar velgengni á undanförnum árum og er ætlunin að byggja enn frekar ofan á þann góða grunn. Framtíð Varðar er því björt og spennandi. Tæknin felur bæði í sér ógnanir og tækifæri en þróun og fjárfesting í nýjum þjónustuleiðum og lausnum er þegar hafin. Vörður hyggst tryggja að viðskiptavinir njóti nútímalegra leiða í viðskiptum sínum.