Stakksberg

Stakksberg ehf. er félag í eigu Arion banka sem snemma á árinu 2018 tók yfir kísilverksmiðjuna í Helguvík af þrotabúi Sameinaðs sílíkons. Umhverfisstofnun hafði áður stöðvað rekstur kísilverksmiðjunnar í septembermánuði 2017 vegna annmarka á rekstri sem fólu í sér frávik frá starfsleyfi. Ljóst er að verksmiðjan var að mörgu leyti vanbúin til framleiðslu á kísli, sem meðal annars leiddi til stöðvunar rekstrarins. 

Líkt og aðrar kísilverksmiðjur víða um heim er verksmiðjan staðsett nálægt íbúabyggð í Reykjanesbæ. Vegna annmarka á starfseminni fram að stöðvun hennar hefur verksmiðjan verið umdeild í bæjarfélaginu. Markmið Stakksbergs er að vinna að úrbótum þannig að starfsemin uppfylli ströngustu gæðakröfur, varðandi gæði framleiðslunnar, aðbúnað og öryggi starfsfólks og áhrif á umhverfið, og geti farið fram í sátt við nærumhverfið.

Þegar verksmiðjan í Helguvík verður gangsett mun Stakksberg framleiða 99% hreinan kísil sem nýttur verður til áframvinnslu og framleiðslu á fjölbreyttum vörum svo sem snyrtivörum, eldhúsáhöldum, tölvum og sólarhlöðum sem virkja hreina raforku úr geislum sólarinnar. Ætla má að allt að helmingur af allri kísilframleiðslu Stakksbergs verði nýttur til framleiðslu á sólarhlöðum. Með því að nota hreina íslenska orku til að framleiða kísil verður hann mun umhverfisvænni en stór hluti þess kísils sem nú er framleiddur í heiminum.

Stakksberg hefur fengið öll nauðsynleg leyfi til rekstrarins yfirfærð til sín, sem og raforkusamning, og jafnframt unnið úrbótaáætlun fyrir verksmiðjuna sem hefur hlotið samþykki Umhverfisstofnunar. Stakksberg vinnur einnig að gerð nýs umhverfismats fyrir starfsemi verksmiðjunnar. Mun hið nýja umhverfismat taka til framkvæmda við úrbætur og breytingar á verksmiðjunni til að uppfylla kröfur Umhverfisstofnunar í samræmi við framangreinda úrbótaáætlun. Markmið Arion banka hf. er að selja Stakksberg til rekstraraðila sem hefur reynslu og þekkingu af rekstri kísilverksmiðju.