Skrifstofa bankastjóra

Undir skrifstofu bankastjóra falla meðal annars, fyrir utan bankastjóra sjálfan, aðstoðarmenn/ritarar, sérfræðingar í viðskiptaþróun, forsvarsmaður Arion banka í nýsköpun, persónuverndarfulltrúi og umboðsmaður viðskiptavina. Jafnframt tilheyra mannauður, markaðsdeild, samskiptasvið, fjárfestatengsl, lánaumsýsla og regluvarsla skrifstofu bankastjóra. 

Hausmynd-Fyrirtaeki-Netbanki_SAMAN.png

Þannig felast verkefni sviðsins meðal annars í almennri aðstoð við bankastjóra og utanumhaldi vegna stjórnar- og nefndarfunda. Viðskiptaþróun sinnir þróun og stefnumótun bankans til lengri og skemmri tíma og verkefnum á sviði nýsköpunar, eins og Startup Reykjavík og Startup Energy Reykjavík. Í verkahring umboðsmanns viðskiptavina er greining og eftirfylgni á málum einstaklinga og fyrirtækja. Persónuverndarfulltrúi starfar í samræmi við persónuverndarstefnu bankans sem segir til um hvaða persónuupplýsingum bankinn safnar, hvers vegna, hversu lengi upplýsingarnar verði geymdar, hvert þeim kunni að verða miðlað og hvernig öryggi þeirra er tryggt. 

Stærstur hluti eigna bankans í skráðum og óskráðum félögum fellur undir skrifstofu bankastjóra.

Mannauður er samstilltur og framsækinn hópur sem hefur skýra sýn og þekkingu til að miðla stefnu bankans. Starfsfólk mannauðs veitir ráðgjöf og stuðning við val á starfsfólki, auk þess að efla leiðtogafærni og hæfni starfsfólks. Mannauður styður við starfsþróun, hvetur til stöðugra umbóta og aukinnar starfsánægju. Mannauður er stefnumiðaður samherji sem styður við stefnu bankans með því að tengja saman fólk og lykilferla með upplifun viðskiptavina að leiðarljósi.

Hlutverk markaðsdeildar er að styðja við uppbyggingu langtímaviðskiptasambands við viðskiptavini bankans með viðeigandi markaðssetningu og boðmiðlun. Markaðssetningin er í takt við stefnu og framtíðarsýn bankans og felst í markaðssetningu á vörum og þjónustu, viðburðastjórnun og innra markaðsstarfi ásamt því að hlúa að ímynd og vörumerki bankans.

Samskiptasvið heldur utan um samskipti og almannatengsl bankans gagnvart ytri markhópum ásamt boðskiptum við innri markhópa. Verkefnastjórn samfélagsábyrgðar er hjá samskiptasviði.

Fjárfestatengsl halda utan um samskipti við fjárfesta og sjá um að veita fjárfestum tímanlega réttar og viðeigandi upplýsingar til að auðvelda þeim að skilja starfsemi bankans.

Regluvarsla bankans hefur það hlutverk að tryggja með skilvirkum fyrirbyggjandi aðgerðum að Arion banki starfi í hvívetna í samræmi við lög, reglur og góða viðskiptahætti og stuðla að góðri fyrirtækjamenningu hvað þetta varðar. Nánar um regluvörslu Arion banka hér.

Lánaumsýsla á aðkomu að stærstu lánamálum bankans og er ætlað að tryggja heildaryfirsýn yfir lánasafn bankans. Lánaumsýsla á fulltrúa í öllum lánanefndum bankans og situr forstöðumaður deildarinnar jafnframt fundi lánanefndar stjórnar. Starfsfólk Lánaumsýslu er annars vegar lánastjórar sem vinna með viðskiptastjórum að greiningu einstakra lánamála og hins vegar sérfræðingar sem leggja fram skriflegar ábendingar um mál sem koma til ákvörðunar í lánanefndum bankans. Deildin kemur að tillögugerð og þróun lánareglna bankans.