Fjárhagsniðurstöður

Hagnaður samstæðu Arion banka á árinu 2018 nam 7,8 milljörðum króna samanborið við 14,4 milljarða króna árið 2017. Arðsemi eigin fjár var 3,7% en var 6,6% á árinu 2017.

Hagnaður samstæðunnar lækkar milli ára, einkum vegna lægri hreinna fjármunatekna, lægri annarra rekstrartekna, mun hærri virðisrýrnunar útlána og áhrifa bakfærslu á skuldbindingu gagnvart Tryggingasjóði innstæðueigenda sem gerð var árið 2017.

Dótturfélagið Valitor er flokkað sem starfsemi til sölu frá árslokum 2018. Samanburðartölum í rekstri hefur verið breytt fyrir árið 2017.

Hagnaður
Milljarðar króna

Rekstrartekjur

Rekstrartekjur námu 46,2 milljörðum króna, samanborið við 46,9 milljarða króna 2017. Hreinar vaxtatekjur og hreinar þóknanatekjur jukust lítillega milli ára, hreinar tryggingatekjur hækkuðu verulega en aðrar rekstrartekjur lækkuðu umtalsvert vegna minni virðisbreytinga á fjárfestingareignum.

Hreinar vaxtatekjur eru svipaðar milli ára en vaxtamunur af meðalstöðu vaxtaberandi eigna nam 2,8% á árinu 2018, samanborið við 2,9% árið 2017. Vaxtaberandi eignir aukast um 37 milljarða króna frá árslokum 2017 en vegna breyttrar samsetningar lausafjár eftir myntum, þar sem stærri hluti er í erlendum myntum sem bera lága vexti, eru hreinar vaxtatekjur nær óbreyttar milli ára.

Hreinar vaxtatekjur og vaxtamunur
Milljarðar króna


Hreinar þóknanatekjur
breytast fremur lítið milli ára en aukningin nemur um 1%. Samsetningin breytist hins vegar þar sem þóknanir af eignastýringu lækka nokkuð, einkum vegna lægri árangurstengdra þóknana en síðustu ár en á móti hækka þóknanir af fjárfestingarbankastarfsemi sem og þóknanir af kortum og  viðskiptabankastarfsemi, ekki síst vegna erlendra ferðamanna.

Hreinar þóknanatekjur
Milljarðar króna


Hreinar fjármunatekjur
námu um 2,3 milljörðum króna, samanborið við 4,0 milljarða króna árið 2017. Afkoma af hlutabréfum var nokkuð lægri á árinu 2018 en fyrri ár, enda hafa stöður í hlutabréfum verið minnkaðar verulega. Góð afkoma af Refresco á árinu 2017 skýrir að talsverðu leyti frávik við árið 2018 en einnig var afkoma á verðbréfamörkuðum almennt lakari á árinu 2018 samanborið við fyrra ár.

Hreinar fjármunatekjur
Milljarðar króna


Hreinar tekjur af tryggingum
námu um 2,6 milljörðum króna, samanborið við 2,1 milljarð króna árið 2017. Eftir komu tryggingafélagsins Varðar inn í samstæðu undir lok árs 2016 hefur verið mjög jákvæð þróun þessara tekna hjá samstæðunni. Iðgjöld jukust um ríflega 11% frá árinu 2017 og tjónahlutfall lækkaði nokkuð. Frekari tækifæri er snúa að tekjuaukningu eru í samlegð með útibúaneti bankans og stafrænni sölu með afurðum bankans til viðskiptavina hans, sem eru enn að litlu leyti viðskiptavinir Varðar.

Hreinar tekjur af tryggingum
Milljarðar króna


Aðrar rekstrartekjur
námu 1,6 milljörðum króna, samanborið við um 2,5 milljarða króna á árinu 2017. Matsbreytingar á fjárfestingareignum hafa hvað mest áhrif á þennan tekjupóst og voru mun minni á árinu 2018 samanborið við 2017 en einnig var afkoma af fullnustueignum bankans lægri en var á árinu 2017.

Aðrar rekstartekjur
Milljarðar króna

Rekstrarkostnaður

Rekstrarkostnaður nam samtals 26,3 milljörðum króna, samanborið við 22,9 milljarða króna árið 2017. Kostnaðarhlutfall var 56,9% samanborið við 48,9% á árinu 2017. Hækkun er á rekstrarkostnaði, samanborið við fyrra ár, ekki síst vegna einskiptisliðar á árinu 2017 þegar bakfærð var skuldbinding bankans við Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta sem nam 2,7 milljörðum króna. Kostnaður sem hlutfall af eignum nam 2,3% á árinu 2018, samanborið við 2,1% á árinu 2017.

Laun og launatengd gjöld námu 14,3 milljörðum króna og hækkuðu um tæp 5% frá fyrra ári. Hækkunina má nær eingöngu rekja til almennra launahækkana 2018, í kjölfar kjarasamnings sem gildi tók í maí 2018. Reiknuð meðallaun starfsfólks samstæðunnar hafa hækkað um tæp 6% milli ára en á sama tíma hækkaði launavísitala um 6,3%. Fjöldi stöðugilda hjá samstæðunni var 904 í árslok sem er fækkun um 45 stöðugildi frá fyrra ári. Fækkunin er að talsverðu leyti tilkomin vegna útvistunar á seðlaveri í samvinnu við Íslandsbanka og Landsbankann, sem tók til starfa snemma á árinu 2018, hagræðingar í útibúaneti bankans og áhrifa stafrænna lausna með aukinni sjálfvirkni.

Annar rekstrarkostnaður var 12,0 milljarðar króna á árinu 2018 og hækkar um 29% frá 2017. Hækkunin skýrist einkum af bakfærslu skuldar að fjárhæð 2,7 milljarðar króna við Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta árið 2017. Samsetning kostnaðar hefur breyst nokkuð, þannig að kostnaður við upplýsingatækni hefur hækkað nokkuð á meðan aðkeypt sérfræðiþjónusta hefur lækkað. Talsverður sérfræðikostnaður var tilkominn vegna undirbúnings við skráningu bankans á markað á miðju ári 2018, bæði árið 2017 og á fyrri hluta ársins 2018.

Rekstrarkostnaður / kostnaðarhlutfall
Milljarðar króna


Hrein virðisbreyting
var neikvæð um sem nam 3,5 milljörðum króna, samanborið við 0,3 milljarða króna jákvæða breytingu árið 2017. Helstu niðurfærslur ársins 2018 voru tengdar gjaldþroti Primera Air, þar sem um 2,8 milljarðar króna voru gjaldfærðir vegna lána og ábyrgða félagsins. Aðrar gjaldfærslur voru mun minni og í meiri takt við eðlilega niðurfærslu sem hlutfall af lánabók. Á árinu 2017 höfðu uppgreiðslur eldri íbúðalána og greiðslur tengdar nauðasamningum sem og lokagreiðslur vegna uppgjörs slitabúa þar sem lán höfðu áður verið niðurfærð hjá bankanum jákvæð áhrif á hreina virðisbreytingu en á móti kom gjaldfærsla vegna varúðarniðurfærslu á lánveitingu til United Silicon, tæpir 3 milljarðar króna.

Tekjuskattur nam 4,0 milljörðum króna, samanborið við um 6,0 milljarða króna árið 2017. Tekjuskattur, eins og hann er settur fram í ársreikningi, samanstendur af 20% tekjuskatti af hagnaði og 6% sérstökum fjársýsluskatti sem lagður er á hagnað fjármálafyrirtækja umfram einn milljarð króna. Virkt tekjuskattshlutfall var 29,2% samanborið við 28,9% árið 2017. Hið háa tekjuskattshlutfall má m.a. rekja til þess að bankaskattur (0,376% á skuldir umfram 50 milljarða króna) er ekki frádráttarbær. Til viðbótar við ofangreinda skatta er greiddur 5,5% fjársýsluskattur af launum starfsmanna fjármálafyrirtækja. Samantekt ofangreindra skatta má sjá á myndinni hér fyrir neðan.

Skattar
Milljarðar króna


Afkoma af starfsemi til sölu 
var tap upp á 1,2 milljarða króna á árinu 2018 samanborið við 0,7 milljarða króna tap á árinu 2017. Stærstur hluti þessa er tilkominn vegna endurflokkunar Valitors sem starfsemi til sölu í árslok 2018 og er samanburðartölum breytt til samræmis. Félagið hefur fjárfest mikið í vexti á síðustu tveimur árum og mun halda áfram á þeirri vegferð á næstu misserum en Arion banki gerir ráð fyrir sölu á meirihluta eða öllu hlutafé félagsins á næstu tólf mánuðum.

Efnahagsreikningur

Heildareignir samstæðu Arion banka jukust um 1,4% frá árslokum 2017. 

Sjóður og innstæður hjá Seðlabanka Íslands námu 83.139 milljónum króna í árslok, samanborið við 139.819 milljónir króna í árslok 2017. Lækkunina má einkum rekja til kaupa á eigin bréfum og arðgreiðslna að fjárhæð 33,3 milljarða króna á árinu.

Lán til viðskiptavina námu 833.826 milljónum króna í árslok 2018, sem er 9% aukning frá áramótum. Lán til fyrirtækja hafa aukist um 8,3% á árinu, einkum tengt fasteignum og flutningum. Lán til einstaklinga jukust um 9,6% á árinu, nær eingöngu íbúðalán, þrátt fyrir harða samkeppni á þeim markaði frá lífeyrissjóðum. Vegna gjaldþrots Primera Air færði bankinn niður eignir á tímabilinu að fjárhæð 2,8 milljarða króna sem hafði lítils háttar áhrif á lánavöxt.

Lán til viðskiptavina
%


Lánasafn samstæðunnar er vel dreift. Tæplega helmingur þess eru lán til einstaklinga og ríflega helmingur er til fyrirtækja í hinum ýmsu atvinnugreinum og er skiptingin í takt við samsetningu íslenska efnahagsumhverfisins.

Lán til viðskiptavina eftir atvinnugreinum


Verðbréfaeign
nam 114.557 milljónum króna í árslok 2018, samanborið við 109.450 milljónir króna í árslok 2017. Samsetning verðbréfasafns ræðst mikið af því lausafé sem bankinn hefur til umráða hverju sinni. Tilflutningur úr erlendum lausafjársjóðum yfir í skuldabréf á árinu 2018 skýrir einkum breytingarnar en einnig hefur bankinn selt nokkuð niður stöður sínar í skráðum og óskráðum hlutabréfum.

Verðbréfaeign
Milljarðar króna


Eignir og starfsemi til sölu
námu í árslok 48.584 milljónum króna samanborið við 8.138 milljónir króna í árslok 2017. Helsta ástæðan fyrir hækkuninni er að nú er dótturfélagið Valitor flokkað sem starfsemi til sölu. Heildareignir Valitor í árslok námu 40.003 milljónum króna, að mestu leyti handbært fé og bankareikningar.

Skuldir og eigið fé

Skuldir samstæðu Arion banka hækkuðu um 4% á árinu. Eigið fé lækkaði á árinu vegna kaupa á eigin bréfum og arðgreiðslna samtals að fjárhæð 33,3 milljarðar króna. Hagnaður ársins og áhrif innleiðingar IFRS 9 koma á móti lækkuninni að hluta til.

Skuldir og eigið fé
Milljarðar króna


Innlán frá viðskiptavinum
námu 466.067 milljónum króna í árslok og hækkuðu um 1% frá árslokum 2017. Samsetning innlána breytist hins vegar töluvert þar sem hærra hlutfall innlána er nú frá einstaklingum og smærri fyrirtækjum á viðskiptabankasviði en hlutfall stofnanafjárfesta lækkaði á móti. Innlán eru, nú sem áður, mikilvægasta fjármögnun bankans og bankinn leggur áherslu á að halda stöðu sinni á innlánamarkaði eins sterkri og kostur er.

Lántaka bankans nam 417.782 milljónum króna í árslok. Í mars gaf bankinn út skuldabréf á alþjóðlegum markaði til fimm ára að fjárhæð 300 milljónir evra, sem samsvarar um 37 milljörðum króna. Jafnframt hélt bankinn áfram útgáfu sértryggðra skuldabréfa á íslenska markaðnum og nam útgáfan 32 milljörðum króna sem og víxla sem námu tæpum 31 milljarði króna á árinu 2018. 

Víkjandi lán námu 6.532 milljónum króna í árslok í kjölfar útgáfu á víkjandi skuldabréfi að fjárhæð 500 milljónir SEK í nóvember. Skuldabréfin voru gefin út á kjörum sem námu STIBOR 310 til 10 ára með möguleika á að greiða þau 2023.

Eigið fé hluthafa bankans nam 200.729 milljónum króna í árslok 2017 samanborið við 225.606 milljónir króna í lok árs 2017. Lækkunin er tilkomin vegna kaupa á eigin bréfum á fyrsta ársfjórðungi og arðgreiðslna á fyrsta og þriðja fjórðungi, samtals 33,3 milljónir króna, en á móti kemur hækkun á eigin fé vegna innleiðingar IFRS 9 og afkomu ársins. Hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 hjá bankanum nam 21,2% í árslok 2018, samanborið við 23,6% í árslok 2017.