Valitor

Valitor auðveldar kaup og sölu á vöru og þjónustu. Fyrirtækið fjarlægir flækjur úr greiðslumiðlun með eigin tækni, lausnum og viðurkenndri þjónustu til þess að kaupmenn geti einbeitt sér að sínum viðskiptum. Valitor er alþjóðlegt greiðslulausnafyrirtæki og eitt fárra er bjóða alhliða þjónustu sem spannar allt frá samþykki greiðslu, kortaútgáfu, alrásargátt (omni-channel gateway) og posaþjónustu við búðarborðið. Valitor var stofnað árið 1983 og höfuðstöðvar félagsins eru á Íslandi. Starfsemin nær til 22 Evrópulanda með sterkri stöðu á mörkuðum í Bretlandi, á Írlandi, Norðurlöndum og í samevrópskri (pan-European) smásöluverslun.

Við árslok 2018 unnu 418 starfsmenn af 25 þjóðernum á sex starfsstöðvum Valitor í Hafnarfirði, Bretlandi og Danmörku. Fyrirtækið er alfarið í eigu Arion banka.

Valitor hélt áfram að vaxa árið 2018. Heildartekjur félagsins námu 21,3 milljörðum kr. sem er 6% aukning frá árinu 2017, en nettótekjur, sem eru heildartekjur að frádregnum millibankagjöldum og gjöldum til kortasamtaka, námu 9,3 milljörðum og jukust um 23% milli ára. Heildarfjöldi viðskiptavina Valitor var um 40.000 í árslok. 

Meginatriði 2018

Síðastliðið ár einkenndist af miklum fjárfestingum Valitor í vöruþróun, innviðum og markaðssókn en þar ber hæst alrásarlausn (omni-channel solution) Valitor.

Viðskipti innanlands gengu vel árið 2018. Árangur í beinni markaðssókn var undir væntingum, sem skýrist af hægari söluvexti í Bretlandi og á Írlandi en ráð var fyrir gert ásamt töfum á innleiðingu alrásarhugbúnaðarkerfis (omni-channel platform) Valitor. Á ofanverðu árinu komst sala í Bretlandi og á Írlandi á góðan skrið og alrásarlausnin var seld og sett upp hjá mikilvægum viðskiptavinum – hvort tveggja veit á gott fyrir árið 2019.

Rekstur Partnership einingarinnar gekk betur en við var búist. Eins og fyrir lá afréð stærsti samstarfsaðili Valitor að taka færsluhirðingu í eigin hendur og skildu leiðir í júlí. Þessi niðurstaða hafði talsverð áhrif á vöxt tekna og viðskipta Valitor á árinu en þess er vænst að þróunin verði hagfelld á ný árið 2019 þar sem Valitor stendur vel að vígi á mjög áhugaverðum mörkuðum lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem og varðandi alrásargreiðslulausnir (omni-channel payment solutions) fyrir stærri viðskiptavini.

Valitor er vaxtarfyrirtæki

Valitor er vaxtarfyrirtæki sem keppir á afar kvikum alþjóðamarkaði er stýrist af nokkrum áhrifavöldum, aðallega:

  • Mjög öflugri samkeppni og lægri þröskuldum fyrir nýja þátttakendur en áður (færsluhirðar, fjártæknifyrirtæki, veitendur greiðsluþjónustu).

  • Tæknibreytingum og breyttri hegðun neytenda – ásamt breyttu hegðunarmynstri og breyttum kröfum lýðfræðilegra hópa, s.s. Z-kynslóðarinnar, aldamótakynslóðarinnar og eldri markhópa.

  • Regluverki – almennri löggjöf varðandi fjármálastofnanir og einnig nýlegum reglugerðum á borð við PSD2 og GDPR sem báðar tóku gildi á árinu 2018.

Valitor er að vaxa og fyrirtækið þarf að vera snart í snúningum til að treysta samkeppnishæfni sína í alþjóðlegu umhverfi. Hvergi má hika við að innleiða breytingar sem greiða fyrir vexti félagsins og styðja við samkeppnisstefnu þess. Valitor tekur breytingum á sviði greiðslumiðlunar og tengdum áskorunum fagnandi. Á árinu 2018 gerði félagið nokkrar breytingar sem munu styrkja samkeppnishæfni þess á árinu 2019 og til framtíðar.

Nýr brennipunktur stefnumörkunar

Starfsemi Valitor grundvallast á stefnu sem upphaflega var mótuð árið 2012. Þar var áhersla lögð á aukið magn viðskipta og aukna stærð í krafti samvinnu við samstarfsaðila, ásamt því hvernig ná mætti öflugari fótfestu á mörkuðum beinna viðskipta og veita viðskiptavinum altæka þjónustu, sérstaklega í Bretlandi, á Írlandi og í Danmörku, auk Íslands.

Í júní hóf Arion banki, eigandi Valitor, frumútboð hlutafjár og í kjölfarið var bankinn skráður á aðallista hjá Nasdaq Iceland og Nasdaq Stockholm. Í aðdraganda útboðsins tilkynnti bankinn að hann væri að fara yfir valkosti sína varðandi eignarhald á Valitor. Til að styðja við Arion banka í þessu ferli var ákveðið að Valitor undirgengist strategískt endurmat og var Ernst & Young (EY) í London fengið til þess að vinna með stjórnendateymi Valitor að verkefninu. Niðurstaða þessarar vinnu var rökrétt framhald þeirra breytinga sem Valitor réðst í á síðasta ári til að skerpa fókus á beina þjónustu (direct channel) við lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi, Írlandi og í Bretlandi og á alrásarþjónustu (omni-channel) við stærri samevrópska (pan-European) viðskiptavini. Þessir markaðir eru álitnir tveir af þeim álitlegustu á sviði greiðslumiðlunar; markaðurinn fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki er mjög stór og vaxandi en nýtur almennt ekki nægrar þjónustu; og alrásarmarkaðurinn (omni-channel) er í örum vexti og kallar á raunverulegar alrásarlausnir eins og Valitor hefur að bjóða.

Valitor ákvað einnig að falla frá Partnership viðskiptum í því formi sem þau höfðu verið en færa þess í stað valinn hóp samstarfsaðila yfir í SMB Partners viðskiptin. Smám saman verður að mestu dregið úr alþjóðlegum fyrirframgreiddum kortaviðskiptum á árunum 2019 og 2020. Með Issuing Solutions (útgáfusviði) mun Valitor sem forystufyrirtæki í útgáfu- og vinnsluþjónustu halda áfram að þjóna samstarfsaðilum sínum hér á landi á sviði bankaþjónustu.


Það er lykilþáttur í stefnu Valitor að þróa eigin hugbúnaðarkerfi fyrir útgáfu og færsluhirðingu ásamt tengdum lausnum til þess að auðvelda kaup og sölu. Fyrirtækið telur að þetta áhersluatriði sé lykill að því að aðgreina sig frá keppinautunum og hafa betur í samkeppni við þá. Alrásargátt (omni-channel gateway) og færsluhirðing Valitor hafa skýra sérstöðu og gera viðskiptavinum kleift að nýta sér lausnir Valitor á öllum sölurásum og í mörgum löndum á sama tíma. Þetta er eitt hugbúnaðarkerfi sem þjónar öllum viðskiptavinum Valitor á alþjóðlega vísu, þar sem upplifun viðskiptavinar er samhæfð, hvort sem viðskiptavinur verslar í búð eða á netinu, og einnig fyrir kaupmenn sem geta haft góða sýn yfir sölu í gegnum allar sölurásir sem boðið er upp á; SMB lausn fyrirtækisins býður upp á staðlaða færsluhirðingu við búðarborðið og einnig vefviðskipti. Þar að auki er verðlaunað útgáfukerfi Valitor fyrsta flokks.

One Valitor

Í janúar 2018 var One Valitor verkefninu hleypt af stokkunum í því skyni að sameina í einu félagi öll fyrirtæki og einingar innan Valitor samsteypunnar, jafnframt því að sameina alla starfsemina undir Valitor vörumerkinu að undangengnum markaðsrannsóknum. Verkefnið hefur mælst vel fyrir meðal starfsfólks og það hefur verið upplýst reglulega um framvindu mála. Nokkrir áfangar hafa staðið upp úr í sameiningarferlinu, t.d. sameiginleg skipulagsgerð og vinnustofur varðandi sameiginlega vinnustaðarmenningu og gildismat. Gildi fyrirtækisins voru fínstillt á árinu. „Traust, Samvinna og Frumkvæði“ breyttust í „Traust, Samvinna og Frábærni“ – þar sem nýja gildið Frábærni (Excellence) skírskotar til árangursdrifins fyrirtækis, árvekni og snerpu í viðskiptum. 

Í janúar 2019 verður lokið við að endurmarka (rebrand) allar einingar félagsins undir merkinu Valitor og nöfn AltaPay, IPS og Chip & PIN breytast í Valitor-vörumerkið.

Samfélagið okkar

Það er stefna Valitor að sýna gott fordæmi í umhverfismálum. Markmiðið er að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif rekstrarins með því að leggja rækt við sjálfbærni, bæði í innri og ytri starfsemi. Árið 2016 undirritaði Valitor samning við Kolvið um kolefnisjöfnun flugferða og notkun á bifreiðum félagsins á næstu árum. Þá hafa staðlar sem styðjast við umhverfissjónarmið í viðskiptum við birgja og þjónustuaðila verið innleiddir. Og árið 2017 hóf Valitor samstarf við Klappir Grænar Lausnir hf. um hugbúnaðarlausn varðandi orkunotkun og kortlagningu á vistspori Valitor.

Árið 2018 endurnýjaði Valitor bílaflota sinn með rafbílum og tvinnbílum sem eru snarpir, hljóðlátir og visthæfir. Höfuðstöðvar Valitor í Hafnarfirði eru með græn bílastæði og hleðslustöðvar fyrir bifreiðar félagsins og starfsfólks þess. Valitor býður starfsfólki sínu samgöngustyrki sem stuðla að vistvænum ferðamáta.

Valitor hélt áfram að styðja við mikilvæg málefni og verkefni með samfélagssjóði sínum á árinu – eins og félagið hefur gert undanfarin 27 ár.

Í takti við stefnu Valitor var haldið áfram að fjárfesta verulega á árinu í þróun eigin greiðslumiðlunarkerfa og tengdra lausna, ásamt traustri uppbyggingu sölu, markaðsmála og innviða til að styðja við heilbrigðan vöxt, samkeppnishæfni og varðmætasköpun félagsins til framtíðar.