Fjárfestingarbankasvið

Fjárfestingarbankasvið Arion banka leiðir saman kaupendur og seljendur á fjármálamarkaði og veitir fyrirtækjum og fjárfestum ráðgjöf um uppbyggingu rekstrar og efnahags. Helstu þjónustuþættir fjárfestingarbankasviðs eru miðlun verðbréfa og gjaldeyris, fyrirtækjaráðgjöf og greining. Fjárfestingarbankasvið Arion banka hlaut Euromoney Awards for Excellence verðlaunin árið 2018 sem „Besti fjárfestingarbankinn á Íslandi“. Framkvæmdastjóri sviðsins frá október 2017 er Lýður Þór Þorgeirsson.

Large-kona-madur-kaupholl-bjalla-sulurit-kokurit-hvitt-bak.jpg

Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka veitir ráðgjöf við kaup, sölu, samruna og yfirtöku á fyrirtækjum og stærri eignarhlutum ásamt því að vera leiðandi umsjónaraðili með skráningum verðbréfa á Nasdaq Iceland. Meðal viðskiptavina fyrirtækjaráðgjafar eru mörg af stærstu fyrirtækjum á Íslandi og flestir helstu fjárfestar landsins. Teymið býr yfir mikilli reynslu og yfirgripsmikilli þekkingu og er áhersla lögð á fagmennsku og vönduð vinnubrögð.

Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka kom að ýmsum verkefnum á árinu 2018. Helst ber að nefna að fyrirtækjaráðgjöf var einn af fjórum alþjóðlegum umsjónaraðilum við vel heppnað útboð og skráningu Arion banka á markað bæði í Reykjavík og Stokkhólmi. Fyrirtækjaráðgjöf var einnig ráðgjafi N1 við kaup þess á öllu hlutafé í Festi og veitti einnig Regin ráðgjöf við kaup á fasteignum í eigu Fast-1, þ.m.t. turninn við Höfðatorg. Voru það tvenn stærstu fyrirtækjaviðskipti síðastliðinna ára. Þar að auki veitti fyrirtækjaráðgjöf sjóðnum Umbreytingu ráðgjöf við kaupin á Borgarplasti og Plastgerð Suðurnesja ásamt því að sjá um stærsta skuldabréfaútboð ársins 2018 fyrir Regin fasteignafélag.

Fyrirtækjaráðgjöf var einnig ráðgjafi N1 við kaup þess á öllu hlutafé í Festi og veitti einnig Regin ráðgjöf við kaup á fasteignum í eigu Fast-1, þ.m.t. turninn við Höfðatorg. Voru það tvenn stærstu fyrirtækjaviðskipti síðastliðinna ára.

Fyrirtækjaráðgjöf hyggst eftir sem áður vera leiðandi í því að veita fyrirtækjum og fjárfestum faglega ráðgjöf og styðja þannig við áframhaldandi uppbyggingu íslensks atvinnulífs og fjármagnsmarkaða. Undanfarin ár hefur bankinn lagt sitt af mörkum við uppbyggingu verðbréfamarkaðar með því að hafa forgöngu um að skrá félög á Aðalmarkað Nasdaq á Íslandi. Jafnframt hefur fyrirtækjaráðgjöf veitt ráðgjöf og kynnt markaðnum ýmsar nýjungar á skuldabréfamarkaði. Á árinu 2019 verður haldið áfram á sömu braut og stoðir atvinnulífs hér á landi styrktar með því að veita viðskiptavinum fjölbreytta og framúrskarandi þjónustu.

Markaðsviðskipti sinna miðlun fjármálagerninga fyrir innlenda og erlenda viðskiptavini bankans. Arion banki hefur undanfarin ár haft sterka stöðu í veltu verðbréfa á Aðalmarkaði Nasdaq á Íslandi og var til að mynda með mestu hlutdeild kauphallaraðila á hlutabréfamarkaði á árinu 2018. Skuldabréfamiðlun Arion banka sá um frumsölu skuldabréfa fyrir Félagsbústaði, Reiti og Regin auk þess að annast frumsölu á sértryggðum skuldabréfum Arion banka. Gjaldeyrismiðlun Arion banka hefur gegnum árin haft sterka stöðu á gjaldeyrismarkaði ásamt því að bjóða viðskiptavinum sínum upp á fjölbreyttar áhættustýringarvörur til að verja sig fyrir vaxta- og gjaldeyrisáhættu. Markaðsviðskipti Arion banka hafa viðhaldið góðum tengslum vegna miðlunar með erlend verðbréf og geta sérfræðingar markaðsviðskipta veitt aðstoð og milligöngu í viðskiptum á skráðum verðbréfum á öllum helstu verðbréfamörkuðum heims.

Arion banki hefur undanfarin ár haft sterka stöðu í veltu verðbréfa á Aðalmarkaði Nasdaq á Íslandi og var til að mynda með mestu hlutdeild kauphallaraðila á hlutabréfamarkaði á árinu 2018.

Megináhersla markaðsviðskipta hefur verið á að veita stækkandi hópi viðskiptavina góða þjónustu og aðgang að framúrskarandi þekkingu og kerfum. Áhersla næstu missera mun áfram vera á vöruþróun, til að bjóða viðskiptavinum fleiri tækifæri til ávöxtunar og áhættudreifingar og áfram er unnið að því að efla stafrænar lausnir bankans.

Greiningardeild fjallar um íslenskt efnahagslíf, spáir í framvindu efnahagsmála, þróun hagstærða og afkomu félaga og atvinnugreina. Við það starf gefur greiningardeildin út margvíslegar skýrslur og kynningar, tekur þátt í fundum og svarar fyrirspurnum. Efni greiningardeildar er ýmist ætlað almenningi, afmörkuðum hópi viðskiptavina og/eða öðrum sviðum bankans. Greiningardeild byggir greiningarvinnu sína á opinberum upplýsingum. Deildin leggur áherslu á þjónustu við viðskiptavini Arion banka í samstarfi við aðrar deildir bankans.

Eitt af markmiðum greiningardeildar er að efla og bæta opinbera umfjöllun um íslenskt efnahagslíf. Greiningardeild er mönnuð sérfræðingum sem hafa menntun, áhuga og reynslu sem nýtist við umfjöllun efnahagsmála. Mikilvægt er að starfsmenn deildarinnar hafi hæfni og metnað til þess að greina aðalatriði frá aukaatriðum og setja efni sitt fram á auðskiljanlegan hátt. Greiningardeild hefur fullt sjálfstæði frá öðrum deildum bankans. 

Deildin stóð fyrir ýmsum opnum fundum og ráðstefnum í höfuðstöðvum Arion banka þar sem m.a. úttektir á fasteignamarkaði og ferðaþjónustu voru kynntar ásamt hagspá deildarinnar. Þá kynntu sérfræðingar deildarinnar greiningarefni sitt á fjölmörgum fundum með viðskiptavinum Arion banka víða um land.

Framtíðarhorfur

Á langflesta mælikvarða stendur íslenskt efnahagslíf traustum fótum. Flest bendir þó til að hagvöxtur á Íslandi verði minni á árinu 2019 en árin þar á undan. Ferðaþjónusta mun ekki drífa áfram vöxt útflutnings líkt og undanfarin ár. Þá veldur óvissa um kjarasamninga því t.a.m. að fjárfestar halda sumir að sér höndunum. Efnahagsþróun síðustu mánuði ársins 2018 og fyrstu mánuði ársins 2019 hefur litast af vaxandi áhyggjum af því að lendingin verði ekki eins mjúk og að var stefnt. Það hefur leitt til þess að skammtímavextir og óverðtryggðir langtímavextir hafa hækkað, verðbólga og verðbólguálag hafa hækkað og krónan sveiflast meira en árin á undan. Þá var ávöxtun skráðra íslenskra hlutabréfa neikvæð eftir tvö mögur ár þar á undan. Ýmislegt bendir síðan til að peningalegt aðhald sé nú að aukast meira en stýrivextir einir og sér gefa tilefni til. Líkur eru því á að aðgengi fyrirtækja og einstaklinga að lánsfjármagni dragist saman frá fyrri árum. Á þá sveif leggjast t.d. hækkun eiginfjárkröfu á fjármálafyrirtæki og hindranir á fjárfestingu útlendinga.

Stundum er sagt að fjármagnsmarkaðir séu framsýnni en hagkerfið. Þannig voru markaðir á liðnu ári um margt fjárfestum og fjárfestingarbankastarfsemi óhagfelldari en árin á undan þó að hagvöxtur, sér í lagi framan af ári, hafi verið mikill.

Þótt efnahagshorfur hafi heldur dofnað eru horfur á fjármagnsmörkuðum vel viðunandi og eru ýmis tækifæri í ofangreindri þróun fyrir fjárfestingabankastarfsemi. Til að mynda er útlit fyrir að fjármögnun atvinnulífs muni í auknum mæli fara fram í gegnum fjármagnsmarkaði, skráðum félögum í Kauphöll fjölgar jafnt og þétt, sveiflur í gengi krónunnar undirstrika kosti áhættuvarna, hindranir fyrir erlenda fjárfestingu hér á landi hafa verið lækkaðar og mikil þörf fyrir uppbyggingu innviða hefur byggst upp þar sem kostir markaðsfjármögnunar geta notið sín.