Vegferðin

Frá stofnun Arion banka hafa starfsfólk og stjórnendur lagt metnað sinn í að veita ábyrga bankaþjónustu. Árið 2016 var stefna um samfélagsábyrgð uppfærð og kynnt starfsfólki og síðan þá hefur fjölda verkefna verið komið í farveg, bæði á sviði samfélags- og umhverfismála.

Í nóvember 2015 varð Arion banki aðili að loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar ásamt 103 öðrum fyrirtækjum. Meðal helstu verkefna á sviði loftslagsmála er að ná utan um umhverfisáhrif starfseminnar og höfum við birt umhverfisuppgjör bankans frá því árið 2016. Til að draga úr losun hefur meðal annars hluti bílaflota bankans verið rafvæddur, flokkun sorps hefur verið aukin og starfsfólk hefur verið hvatt til að draga úr sóun.

Í desember 2015 hlaut Arion banki viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum að undangengnu formlegu mati sem byggir á leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq Iceland gefa út. Bankinn hlaut viðurkenninguna í kjölfar ítarlegrar úttektar á stjórnarháttum bankans s.s. starfsháttum stjórnar, undirnefnda og stjórnenda, sem framkvæmd var af KPMG ehf. haustið 2015. Viðurkenningin gildir í þrjú ár.

Arion banki hefur verið aðili að UN Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð fyrirtækja, frá árslokum 2016 og skilar árlega framvinduskýrslu til Sameinuðu þjóðanna. Í sáttmálanum eru sett fram 10 grundvallarviðmið sem snúa að mannréttindum, vinnumarkaði, umhverfi og baráttu gegn spillingu. 

Arion banki hefur verið aðili að UN Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð fyrirtækja, frá árslokum 2016 og skilar árlega framvinduskýrslu til Sameinuðu þjóðanna.

Arion banki er virkur þátttakandi í mótun og þróun ábyrgra fjárfestinga á Íslandi og á fulltrúa í stjórn og vinnuhópum á vegum IcelandSIF, félags íslenskra fjárfesta um ábyrgar fjárfestingar. Arion banki var jafnframt einn af stofnaðilum samtakanna árið 2017.

Síðla árs 2017 gerðist Arion banki aðili að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN PRI). Á árinu 2018 fór fram vinna hjá eignastýringu fagfjárfesta Arion banka við að kortleggja og greina öll fyrirtæki sem eru skráð á aðalmarkað hér á landi út frá frammistöðu á sviði sjálfbærni og samfélagsábyrgðar. Nánari upplýsingar um innleiðingu ábyrgra fjárfestinga má finna undir kafla eignastýringar.

Arion banki fékk á haustmánuðum 2018 jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins eftir að hafa farið í gegnum endurvottun frá BSI á Íslandi. Bankinn fékk upphaflega jafnlaunavottun 2015 og hefur farið í gegnum launagreiningar árlega síðan þá. Mikið hefur verið unnið í jafnréttismálum innan bankans á undanförnum árum, sjá nánari upplýsingar í kafla um mannauð

Seinnihluta ársins 2018 voru nýjar lánareglur bankans samþykktar þar sem meðal annars kemur fram að við mat á lánveitingum skuli eftir föngum horft til sjálfbærni og samfélagsábyrgðar. Lánanefndir bankans fengu fræðslu um samfélagsábyrgð og sjálfbærni og einnig var námskeið um efnið hluti af fræðsludagskrá bankans sem allt starfsfólk bankans hafði aðgang að.

Seinnihluta ársins 2018 voru nýjar lánareglur bankans samþykktar þar sem meðal annars kemur fram að við mat á lánveitingum skuli eftir föngum horft til sjálfbærni og samfélagsábyrgðar.

Í Arion banka er starfandi stýrihópur um samfélagsábyrgð sem tveir framkvæmdastjórar eiga sæti í þ.e. framkvæmdastjóri eignastýringar og framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs. Þá sitja í hópnum forstöðumaður mannauðs, forstöðumaður markaðsdeildar og forstöðumaður samskiptasviðs. Verkefnastjóri hópsins heyrir undir skrifstofu bankastjóra og bankastjóri er ábyrgðarmaður.

Við mótun stefnunnar um samfélagsábyrgð bankans og við val á áhersluatriðum og helstu hagsmunaðilum var stuðst við niðurstöður verkefnavinnu meðal alls starfsfólks á starfsdegi bankans árið 2016. Einnig tók framkvæmdastjórn bankans þátt í vinnustofum um samfélagsábyrgð og viðtöl voru tekin við innri hagsmunaðila og aðila úr stjórn bankans.

Við hlustum á okkar hagsmunaðila og gerum okkur grein fyrir því hversu mikilvægt það er að vera í samskiptum við og hlusta á mismunandi þarfir þessara hópa og skilja hvað skiptir þá mestu máli. Sjá umfjöllun um samskipti við hagsmunaðila.