Eignastýringarsvið
Eignastýringarsvið Arion banka, ásamt dótturfélögum, er leiðandi í eignastýringu á Íslandi með yfir 970 milljarða króna í stýringu. Sviðið skiptist í eignastýringu fagfjárfesta, einkabankaþjónustu, fjárfestingarþjónustu og rekstur lífeyrissjóða. Eignastýring Arion banka stýrir fjármunum fyrir hönd viðskiptavina samkvæmt fyrir fram ákveðinni fjárfestingarstefnu hvers og eins. Jafnframt hefur sviðið annast sölu á sjóðum Stefnis hf. til einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og fagfjárfesta sem og sölu á sjóðum alþjóðafyrirtækja. Til viðbótar sinnir sviðið rekstri lífeyrissjóða og lífeyrisafurða. Framkvæmdastjóri sviðsins er Margrét Sveinsdóttir.
Fjölbreytt þjónusta til að mæta ólíkum þörfum
Eignastýringarsvið sérhæfir sig í að veita viðskiptavinum með ólíkar þarfir fjölbreytt úrval fjárfestingarmöguleika. Áhersla er lögð á breitt vöru- og þjónustuframboð þar sem hagsmunir viðskiptavina eru ávallt hafðir að leiðarljósi. Eignastýringarsvið hefur á að skipa starfsfólki með áratugareynslu og þekkingu af fjármálamörkuðum. Lögð er áhersla á persónulega þjónustu byggða á góðri samvinnu eignastýringar og viðskiptavinar. Þannig er lagður grundvöllur að traustu langtímasambandi við viðskiptavini og fjárhagslegum ávinningi þeirra.
Heildareignir í stýringu hjá Arion banka og dótturfélögum
Eignaskipting
Þægilegri bankaþjónusta
Á árinu voru kynntar nýjar stafrænar lausnir fyrir einkabankaþjónustu og almenn verðbréfaviðskipti. Viðskiptavinir, bæði einstaklingar og lögaðilar, geta nú komið í einkabankaþjónustu og stofnað almenn vörslusöfn á einfaldan, fljótlegan og öruggan máta með rafrænni undirritun samninga og annarra skjala. Þjónusta af þessum toga gerir viðskiptavinum auðveldara fyrir að undirrita skjöl hvar og hvenær sem er ef rafræn skilríki eru fyrir hendi.
Samfélagsábyrgð og ábyrgar fjárfestingar
Eignastýring gegnir samfélagslega mikilvægu hlutverki við varðveislu og ávöxtun fjármuna einstaklinga, stofnana og fyrirtækja. Starfsemi eignastýringar byggist fyrst og fremst á trausti og ábyrgð gagnvart viðskiptavinum, hagsmunaaðilum og samfélaginu í heild.
Sem leiðandi afl á innlendum fjármálamarkaði tekur eignastýring Arion banka ábyrgðarhlutverki sínu alvarlega og í samræmi við það hefur verið unnið markvisst að uppbyggingu þekkingar á sviði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga. Þekkinguna hafa sérfræðingar nýtt til fræðslu jafnt innan sem utan bankans, sem og í þjónustu við viðskiptavini eignastýringar.
Á árinu hefur eignastýring fagfjárfesta hjá Arion banka innleitt í starfshætti sína verklag ábyrgra fjárfestinga sem felur í sér að við eignastýringu er horft til þriggja grunnþátta sjálfbærni; umhverfis- og samfélagsþátta og stjórnarhátta. Þannig er horft bæði til fjárhagslegra þátta sem og annarra þátta sem taldir eru viðeigandi við greiningu á fjárfestingu og uppbyggingu eignasafna.
Í fjárfestingarferlinu eru fjárfestingar metnar út frá fyrrnefndum grunnþáttum og lagðar til grundvallar heildarmati við fjárfestingarákvörðun. Eftir að fjárfest hefur verið er haldið utan um virkt eignarhald og meðferð umboðsatkvæða með kerfisbundnum hætti.
Greining á ófjárhagslegum upplýsingum fyrirtækja sem skráð eru á aðalmarkaði íslensku kauphallarinnar fór fram á árinu. Greiningin er hluti af verklagi um ábyrgar fjárfestingar og mælir frammistöðu skráðra fyrirtækja og markaðarins í heild á sviði sjálfbærni og samfélagsábyrgðar. Sérfræðingar eignastýringar hafa átt fundi með fulltrúum þeirra þar sem farið var yfir greininguna. Þannig hefur skapast dýrmætt tækifæri til að ræða ófjárhagslega upplýsingagjöf og framvindu samfélagsábyrgðar við fulltrúa skráðra fyrirtækja sem er mikilvægur liður í hvatningu til fyrirtækjanna í vegferð þeirra að sjálfbærni og samfélagsábyrgð.
Greining á ófjárhagslegum upplýsingum fyrirtækja sem skráð eru á aðalmarkaði íslensku kauphallarinnar fór fram á árinu. Greiningin er hluti af verklagi um ábyrgar fjárfestingar og mælir frammistöðu skráðra fyrirtækja og markaðarins í heild á sviði sjálfbærni og samfélagsábyrgðar.
Arion banki hefur verið virkur þátttakandi í mótun og þróun ábyrgra fjárfestinga á Íslandi og á fulltrúa í stjórn og vinnuhópum á vegum IcelandSIF, félags íslenskra fjárfesta um ábyrgar fjárfestingar. Arion banki var jafnframt einn af stofnaðilum samtakanna árið 2017. Arion banki er einnig aðili að Meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar, United Nations Principles of Responsible Investments (PRI), sem eru virk alþjóðleg samtök eignastýringaraðila og fjármagnseigenda um málefni ábyrgra fjárfestinga. Aðild að samtökunum felur í sér að eignastýring bankans undirgengst sex meginreglur samtakanna um ábyrgar fjárfestingar auk þess að vinna gagnsæisskýrslu um hvernig staðið er að ábyrgum fjárfestingum.
Áframhaldandi góður árangur Frjálsa lífeyrissjóðsins
Frjálsi lífeyrissjóðurinn, sem er í rekstri hjá Arion banka, hélt áfram velgengni sinni og var valinn besti lífeyrissjóður Evrópu í sínum stærðarflokki af hinu virta fagtímariti Investment & Pensions Europe (IPE). Undanfarin ár hefur sjóðurinn hlotið tólf alþjóðleg verðlaun en það er mesti fjöldi verðlauna sem íslenskum lífeyrissjóði hefur hlotnast.
Á árinu varð sjóðurinn 40 ára, en Fjárfestingarfélag Íslands stofnaði sjóðinn árið 1978, og lagði þannig grunn að fyrsta séreignarlífeyrissjóði landsins fyrir starfandi einstaklinga sem gátu valið sér lífeyrissjóð. Sjóðurinn myndar þannig mótvægi við skyldubundna samtryggingarsjóði á almennum vinnumarkaði sem voru stofnaðir nokkrum árum fyrr. Á þessum 40 árum hefur sjóðurinn verið í rekstri hjá sex fjármálafyrirtækjum, þar af sl. 10 ár í farsælum rekstri hjá Arion banka. Í tilefni afmælisins leit ný vefsíða sjóðsins dagsins ljós jafnframt því sem nýtt merki sjóðsins var kynnt.
Nafnávöxtun Frjálsa lífeyrissjóðsins
Áframhaldandi ávinningur viðskiptavina
Fram undan er innleiðing á MiFID II tilskipun Evrópusambandsins og MiFIR-reglugerð á íslenskum verðbréfamarkaði sem mun leiða til breytinga á starfseminni. Markmiðið er að nýta þessar breytingar til hagsbóta fyrir okkar viðskiptavini. Eignastýring Arion banka mun áfram leitast við að skapa og finna fjárfestingarkosti fyrir viðskiptavini til að ávaxta fjármuni þeirra eins og best verður á kosið. Unnið verður sem fyrr að því að skapa ávinning fyrir viðskiptavini með góðri ávöxtun, faglegum vinnubrögðum og markvissri áhættustýringu, ávallt með hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi.