Ábyrgir og arðsamir viðskiptahættir

Hjá Arion banka viljum við vera til fyrirmyndar þegar kemur að ábyrgum rekstri og góðum viðskiptaháttum. Í allri ákvarðanatöku metum við þá margvíslegu hagsmuni sem undir liggja og horfum til langs tíma, ekki síður en skamms. Við leggjum mat á þann ávinning og þá áhættu sem ákvarðanir og lánveitingar geta falið í sér með ólíka hagsmuni í huga. 

Á hverju ári komum við að fjölda spennandi fjárfestingarverkefna með viðskiptavinum okkar, m.a. með það að markmiði að efla atvinnu- og viðskiptalíf hér á landi. Hjá bankanum starfar fjárfestingaráð sem tekur ákvarðanir um fjárfestingu og sölu eigna. Við leggjum áherslu á að félögum í okkar eigu, en í óskyldum rekstri, sé eftir föngum komið í sem breiðast eignarhald. Arion banki hefur því lagt áherslu á að skrá félög í kauphöll og hefur bankinn komið að meirihluta nýskráninga á undanförnum árum. Það er liður í að stuðla að endurreisn innlends hlutabréfamarkaðar og fjölga fjárfestingarkostum á almennum markaði.

Við leggjum okkar af mörkum til upplýstrar umræðu um fjármál og efnahagslíf þjóðarinnar. Í því skyni gefum við út skýrslur og greiningar á mikilvægum málum og stöndum fyrir ráðstefnum og fundum. Við leitumst við að skoða málin frá öllum hliðum og skapa grundvöll faglegrar og upplýstrar umræðu sem er ein helsta forsenda góðra ákvarðana. Við viljum einnig stuðla að auknu fjármálalæsi. Auka skilning á hlutverki og eðli peninga, hvernig maður axlar best ábyrgð á sínum fjármálum og hvernig þeim er best fyrirkomið til skemmri og lengri tíma. Í því skyni bjóðum við upp á námskeið og fræðslufundi um hinar ýmsu hliðar fjármála og miðlum þekkingu okkar í daglegum samskiptum við viðskiptavini. Aukið fjármálalæsi almennings og viðskiptavina leiðir til ábyrgari og upplýstari ákvarðanatöku einstaklinga og fyrirtækja og heilbrigðara efnahagslífs.

Arion banki er virkur þátttakandi í mótun og þróun ábyrgra fjárfestinga á Íslandi og á fulltrúa í stjórn og vinnuhópum á vegum IcelandSIF, félags íslenskra fjárfesta um ábyrgar fjárfestingar. Arion banki var jafnframt einn af stofnaðilum samtakanna árið 2017.

Arion banki er aðili að UN PRI, meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar. Aðild að samtökunum felur í sér að eignastýring bankans undirgengst sex meginreglur samtakanna um ábyrgar fjárfestingar auk þess að vinna gagnsæisskýrslu um hvernig staðið er að ábyrgum fjárfestingum. Sjá nánari í umfjöllun um eignastýringarsvið Arion banka.

Öruggt fjármálakerfi – samfélaginu til hagsbóta

Íslenskt efnahagslíf treystir á skilvirkt og öruggt fjármálakerfi og Arion banki gegnir stóru hlutverki og er mikilvægur innviður í íslensku fjármálakerfi og ber því ríka ábyrgð. Þá gera hagsmunaaðilar okkar miklar kröfur til bankans þegar kemur að öryggi.

Arion banki tekur mjög alvarlega þá skyldu sína að tryggja öruggar fjármagnshreyfingar og vernda þær eignir og upplýsingar sem honum hefur verið falið að gæta. Þá tekur bankinn alvarlega þá skyldu sína að vera á varðbergi gagnvart hvers kyns fjármunabrotum og leggur áherslu á að fyrirbyggja þau skaðlegu áhrif sem slík brot geta haft á viðskiptavini, rekstur bankans og samfélagið. Bankinn er einnig meðvitaður um þá hættu á hagsmunaárekstrum sem óhjákvæmilega fylgir starfseminni og grípur til viðeigandi ráðstafana til að fyrirbyggja að slíkt skaði hagsmuni viðskiptavina.

Við leggjum áherslu á að hafa gott innra skipulag, hæft starfsfólk, skilvirk og örugg kerfi og öflugt innra eftirlit, auk þess sem bankinn leggur sig fram um að eiga í góðu samstarfi við yfirvöld.

Bankinn leggur sérstaka áherslu á aðgerðir til að fyrirbyggja:

  • Peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka, spillingu og viðskipti við aðila sem lúta alþjóðlegum viðskiptaþvingunum.

  • Hagsmunaárekstra.

  • Markaðsmisnotkun og innherjasvik.

  • Sviksemi og tölvuglæpi.

Arion banki leggur sig fram um að eiga ekki í viðskiptum við aðila sem stunda hvers kyns ólögmæta starfsemi. Bankinn leggur því áherslu á að þekkja viðskiptavini sína og aðra þá aðila sem hann starfar með. Bankinn viðhefur einnig eftirlit með fjármunahreyfingum í þeim tilgangi að greina viðskipti sem geta gefið vísbendingu um ólögmæta háttsemi. Þá er bankinn einnig á varðbergi gagnvart tölvuárásum og fjársvikum gegnum netið, en þessar áhættur vaxa samhliða því sem rafræn viðskipti aukast.

Ekkert eftirlit er þó eins öflugt og vökul augu starfsfólks sem fær reglulega þjálfun í að greina grunsamleg viðskipti eða hegðun og hvernig bregðast skuli við. Árlega gengst starfsfólk okkar undir könnunarpróf til að ganga úr skugga um að þekking á peningaþvætti, vörnum gegn því og meðferð trúnaðarupplýsinga sé fullnægjandi.

Grunsemdir um ólögmæta háttsemi viðskiptavina eru án undantekninga tilkynntar lögreglu og bankinn leggur sig fram við að liðsinna yfirvöldum í þeirra rannsóknum.

Arion banki hefur að auki sett sér stefnu um uppljóstranir, þar sem starfsfólk er hvatt til að láta vita ef upp kemur grunur um óviðeigandi eða ólögmæta háttsemi bankans, starfsfólks hans eða samstarfsaðila. Bankinn gætir trúnaðar um uppruna slíkra ábendinga og verndar þá sem stíga fram með grunsemdir sínar, en starfsfólki býðst einnig að senda ábendingar nafnlaust. Allar ábendingar um hugsanlega ólögmæta háttsemi eru rannsakaðar af sjálfstæðum eftirlitseiningum bankans og tilkynntar til viðeigandi yfirvalda eftir því sem tilefni er til. Auk þess býðst starfsfólki, sem og öðrum, að senda ábendingar beint til Fjármálaeftirlitsins á heimasíðu stofnunarinnar.

Innri reglur og eftirlit

Starfsfólk Arion banka er meðvitað um þá staðreynd að starfsemi bankans hefur áhrif á ólíka hagsmunaaðila og samfélagið í heild sinni. Við höfum sett okkur starfsreglur, siðareglur og stefnur um ólíka þætti starfseminnar, s.s. um upplýsingagjöf, persónuvernd, upplýsingaöryggi, peningaþvætti og jafnréttismál.

Nánar um reglur og skilmála á vefsíðu bankans

Siðareglum bankans er ætlað að stuðla að ábyrgri ákvarðanatöku. Siðareglurnar gilda jafnt um stjórn bankans og stjórnendur sem og annað starfsfólk en bankastjóri ber ábyrgð á að þeim sé fylgt. Siðareglurnar eru samþykktar af stjórn bankans og skulu endurskoðaðar a.m.k. árlega.

Mikilvægur þáttur í starfsemi bankans og ábyrgð hans gagnvart samfélaginu er að stýra áhættu og taka upplýstar ákvarðanir. Áhættustýring er því grundvallarþáttur í starfsemi bankans og samfélagsábyrgð hans. Stefna bankans er að hafa virka áhættustýringu sem felur í sér að greina og mæla áhættu og grípa til aðgerða ef hún fer út fyrir skilgreind mörk. Samhliða ársskýrslu gefur bankinn út áhættuskýrslu þar sem ítarlega er gerð grein fyrir helstu áhættum og stýringu á þeim. 

Nánar um innra eftirlit

Stjórnarhættir

Skýrir ferlar við ákvarðanatöku eru lykillinn að ábyrgum stjórnarháttum og við vinnum með verkferla á öllum sviðum bankans í þeim tilgangi að tryggja faglega afgreiðslu mála. Í desember 2015 hlaut Arion banki viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum að undangengnu formlegu mati sem byggir á leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq Iceland gefa út. Bankinn hlaut viðurkenninguna í kjölfar ítarlegrar úttektar á stjórnarháttum bankans, s.s. starfsháttum stjórnar, undirnefnda og stjórnenda, sem framkvæmd var af KPMG ehf. haustið 2015. Viðurkenningin gildir í þrjú ár.

Nánar um stjórnarhætti