Lögfræðisvið

Á lögfræðisviði er lögð áhersla á sjálfstæða lögfræðiráðgjöf, vandaða skjalagerð og faglega innheimtu krafna. Lögð er áhersla á tengsl við aðrar deildir bankans til að tryggja að lögfræðingar komi nægilega snemma að þeim álitaefnum sem til úrlausnar eru. Lögfræðisvið skiptist í fjórar einingar: Endurskipulagningu eigna og málflutning, lögfræðiinnheimtu, lögfræðiráðgjöf og lögfræði- og skjaladeild útlánasviða. Framkvæmdastjóri sviðsins er Jónína S. Lárusdóttir.

Large-kona-vinna-skrifstofa-tolva-hvitt-bak.jpg

Í endurskipulagningu eigna og málflutningi er unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu þeirra viðskiptavina sem eru í greiðsluvandræðum, hvort sem um er að ræða einstaklinga eða lögaðila. Þá er unnið að fullnustu og frágangi krafna Arion banka sem eru í lögfræðilegri innheimtu, s.s. aðför, fullnustu eigna og gjaldþrotaskiptum. Jafnframt er þar sinnt málflutningi fyrir bankann. Deildin hefur umsjón með nauðasamnings- og niðurfellingarnefndum bankans. Í deildinni er enn fremur unnið með fullnustueignir bankans, þ.e. frágang eftir uppboð og leigusamninga sem þeim tengjast.

Í lögfræði- og skjaladeild útlánasviða er unnið að ráðgjöf og skjalagerð fyrir útlánasvið bankans auk skjalagerðar fyrir þá lögaðila sem bankinn hefur sérstaka samninga við. Innan deildar eru tveir hópar, annars vegar ráðgjöf og skjalagerð fyrir viðskiptabankasvið vegna einstaklinga og neytendalána og samninga viðskiptabankasviðs, en hins vegar ráðgjöf og lánaskjalagerð vegna fyrirtækja og lögaðila.

Í lögfræðiinnheimtu er unnið að allri innheimtu fyrir bankann; fruminnheimtu, milliinnheimtu, lögfræðiinnheimtu og kröfuvakt. Meðal annars er séð um útsendingu innheimtubréfa, samskipti og samningagerð við viðskiptavini og lögfræðilegar innheimtuaðgerðir með atbeina dómstóla og sýslumanna.

Í lögfræðiráðgjöf er unnið að ráðgjöf fyrir tilteknar deildir bankans, s.s. eignastýringarsvið, markaðsviðskipti, fyrirtækjaráðgjöf, skrifstofu bankastjóra, markaðssvið, fjármálasvið og stoðsvið bankans, auk þess sem veitt er yfirsýn og upplýsingar um nýja löggjöf, dóma, ákvarðanir og fyrirmæli stjórnvalda. Þá annast lögfræðiráðgjöf ráðgjöf á sviði samkeppnismála og skattamála.