Mannauður

Hjá Arion banka er lögð áhersla á að skapa jákvætt vinnuumhverfi. Unnið er markvisst að því að skapa starfsumhverfi þar sem starfsfólki líður vel og getur samræmt fjölskylduábyrgð og starfsskyldur. Aðferðir straumlínustjórnunar eru nýttar til að auka skilvirkni og umbótamenning ríkir á vinnustaðnum. Jafnréttissjónarmið eru ávallt höfð að leiðarljósi og endurspeglast það í fjölbreyttum hópi starfsfólks. Bankinn hefur sett sér jafnlaunastefnu til að tryggja jöfn kjör fyrir jafnverðmæt störf og hlaut jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins á haustmánuðum 2018.

Large-kona-menn-tafla-benda-sulurit-hvitt-bak.jpg

Fjölbreyttur hópur starfsfólks

Hjá Arion banka starfar fjölbreyttur hópur fólks sem hefur víðtæka reynslu og þekkingu af ýmsum sviðum samfélagsins og margvíslega menntun. Árið 2017 var meðaltal stöðugilda 830 en árið 2018 var það 820. Stöðugildum fækkar því um 10 að meðaltali milli ára en í lok árs 2018 voru stöðugildi 794.

Kynjaskipting stjórnenda með mannaforráð
Aldursdreifing


Meðalaldur starfsfólks Arion banka er 41,8 ár. Meðalstarfsaldur er 10,4 ár en jafnframt er fjöldi starfsfólks sem hefur starfað hjá bankanum og forverum hans í mun lengri tíma eða í allt að 45 ár.

Kynjaskipting starfsfólks

Fræðsla, starfsþróun og velferð

Markmið Arion banka er að efla og viðhalda faglegri þekkingu starfsfólks og tryggja að það hafi alla þá þekkingu sem það þarfnast samkvæmt lögum og lýtur að starfshlutverki þess. Arion banki leggur metnað í að bjóða upp á fjölbreytta fræðslu eftir ólíkum leiðum. Þar má helst nefna metnaðarfulla fræðsludagskrá á hverri önn, rafræna fræðslu, leiðtogaþjálfun, þjónustuþjálfun og ráðstefnur innan- og utanlands. Við leggjum áherslu á að starfsfólk fái viðeigandi fræðslu á réttum tíma og eftir þeim leiðum sem henta hverjum og einum best. Starfsfólk er hvatt til að bera ábyrgð á eigin þekkingu og færni og sýna frumkvæði þegar kemur að fræðslu og endurmenntun. Lögð er áhersla á að veita starfsfólki tækifæri til að eflast og þróast í starfi.

Meðaltími fræðslu var 6,8 stundir á hvern starfsmann árið 2018.

Fræðsla eftir kyni
Meðaltal klst.
Stjórnendur og starfsfólk
Meðaltal klst.

Á árinu hófumst við handa við að efla þjónustumenningu í bankanum með innleiðingu nýrrar þjónustustefnu sem við köllum A plús þjónustu. Innleiðingin byggir á grunni straumlínustjórnunar sem hefur verið innleidd á undanförnum árum í bankanum. Lögð hefur verið áhersla á að skapa lærdómsmenningu, vinna að umbótum og gera þannig stöðugt betur í dag en í gær. Samhliða hefur verið lögð enn meiri áhersla á að veita starfsfólki fræðslu um okkar vörur og þjónustu og nýta til þess þá þekkingu sem býr meðal starfsfólks í bland við utanaðkomandi fyrirlesara.

  • Áfram leggjum við áherslu á að styrkja stjórnendur í leiðtogastarfi þeirra. Sú vegferð hófst árið 2014 og hafa 83 starfsmenn lokið leiðtogaþjálfun Arion banka. Af þeim 83 starfsmönnum eru 78% enn í starfi hjá bankanum.

  • Í árslok 2018 voru 133 starfsmenn í starfi hjá Arion banka sem hafa lokið námi til löggildingar í verðbréfamiðlun. Nú eru 11 starfsmenn í náminu.

  • Frá árinu 2012 hefur verið boðið upp á nám á vegum Samtaka fjármálafyrirtækja á Íslandi fyrir fjármálaráðgjafa einstaklinga og er náminu ætlað að efla þjónustu til viðskiptavina. Í dag hafa 76 starfsmenn bankans lokið náminu og eru 83% enn í starfi hjá bankanum. Nánari upplýsingar um námið má finna hér.

  • Meðalkostnaður vegna aðkeyptrar fræðslu og endurmenntunar starfsfólks var 103.000 krónur á hvern starfsmann.

  • Á árinu voru 87 fræðsluviðburðir í skipulagðri fræðsludagskrá, samtals 200 klukkustundir, og birtir voru 47 nýir rafrænir fyrirlestrar.

Mánaðarlega er send út rafræn könnun til starfsfólks þar sem meðal annars er spurt um líðan, samskipti og tækifæri til starfsþróunar. Svörunin er almennt góð og á skalanum 1-5 var meðaltalið úr niðurstöðum vísitölunnar 4,36 árið 2018.

Arion banki leggur áherslu á að starfsfólk njóti öryggis og heilbrigðis í vinnuumhverfinu. Bankinn leggur sitt af mörkum til að tryggja velferð starfsfólks og býður m.a. upp á heilsufarsskoðanir, augnskoðanir, úttektir sjúkraþjálfara á vinnuaðstöðu, íþróttastyrk og trúnaðarlæknaþjónustu.

Mannauðsstefna

Með því að skapa jákvætt vinnuumhverfi getum við haldið í og laðað til okkar besta starfsfólkið. Í sameiningu leggjum við okkur fram um að skilja þarfir og uppfylla væntingar viðskiptavina okkar, því upplifun þeirra er hjartað í Arion banka.

Mannauðsstefna Arion banka var uppfærð í lok árs 2018 en kjarninn í stefnunni er að innan bankans sé faglega staðið að ráðningum og að réttur einstaklingur sé í hverju starfi. Við vinnum markvisst að því að skapa hvetjandi starfsumhverfi þar sem starfsfólki líður vel og er ánægt í starfi. Við leggjum áherslu á að viðhalda og auka þekkingu og færni starfsfólks ásamt því að veita tækifæri til starfsþróunar. Við hámörkum mannauðinn með fjölbreyttum hópi starfsfólks og með því að tryggja jöfn tækifæri og kjör. Hjá bankanum starfa öflugir stjórnendur með skýra framtíðarsýn og markvisst er unnið að því að þroska leiðtogafærni þeirra. Við leggjum okkur alltaf fram um að veita öfluga og góða þjónustu og sinnum störfum okkar af árvekni. Við sýnum traust og faglegt viðmót í öllum samskiptum og förum fram úr væntingum, bæði samstarfsfólks og viðskiptavina.

Mannauðsstefnan í heild á vefsíðu bankans

Hornsteinar Arion banka

Komum hreint fram

Gerum gagn

Látum verkin tala

Jafnréttismál

Arion banki hefur sett sér skýra stefnu um að tryggja jöfn tækifæri og kjör starfsfólks án tillits til kyns, kynhneigðar, uppruna, þjóðernis, litarhafts, aldurs, fötlunar eða trúar, eða annarrar stöðu. Hvers kyns mismunun á grundvelli kynferðis er í andstöðu við jafnréttisstefnu bankans sem og jafnréttislög. Bankastjóri ber ábyrgð á framgangi jafnréttismála innan bankans en í hans umboði starfar jafnréttisnefnd skipuð fulltrúum starfsfólks.

Arion banki starfar eftir aðgerðaáætlun í jafnréttismálum og var hún endurskoðuð árið 2018. Markmið áætlunarinnar er að stuðla að jafnri stöðu og jöfnum tækifærum starfsfólks óháð kyni. Áætlunin tekur til víðtækra þátta eins og réttar til starfa, kjara, starfsþróunar og setu í nefndum og starfshópum. Verkefnum jafnréttisnefndar er skipt upp í átta efnisflokka: Launajafnrétti, jafnrétti í nefndum, laus störf, vinnuhópa, starfsþjálfun og endurmenntun, jafnréttisfræðslu, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs, einelti og kynbundna/kynferðislega áreitni.

Frá árinu 2014 hefur bankinn verið aðili að Jafnréttissáttmála UN Women og UN Global Compact. Jafnréttissáttmálinn er alþjóðleg yfirlýsing og samkomulag á vegum Sameinuðu þjóðanna sem fyrirtæki og stofnanir geta haft að leiðarljósi við innleiðingu ábyrgra starfshátta, óháð landi og atvinnugrein, og snúa viðmiðin fyrst og fremst að kynjajafnrétti.

Arion banki hlaut jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins, fyrstur íslenskra banka.

Fyrir þremur árum fékk bankinn jafnlaunavottun sem staðfestir að ákvarðanir í launamálum eru byggðar á málefnalegum sjónarmiðum og fela ekki í sér kynbundna mismunun. Arion banki er með faggilta vottun á jafnlaunastaðlinum ÍST 85 og hlaut árið 2018 jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins. Þessi nýjasti áfangi á jafnréttisvegferð okkar er afar ánægjulegur og við gleðjumst yfir þeirri viðurkenningu sem jafnlaunamerkið felur í sér.

Við leggjum áherslu á að samskipti á vinnustaðnum einkennist af gagnkvæmri virðingu og líðum ekki óæskilega hegðun af neinu tagi. Bankinn er með stefnu gegn einelti, áreitni og ofbeldi ásamt því að einn af hornsteinum bankans er að koma hreint fram. Allt starfsfólk á að láta sig varða ef það upplifir óæskilega hegðun gagnvart samstarfsfólki sínu með því að upplýsa stjórnendur um óæskilega hegðun á vinnustaðnum.

Eineltisteymi hefur umsjón með stefnu bankans gegn einelti, áreitni og ofbeldi. Til staðar er ferli til að taka við ábendingum frá starfsfólki um óæskilega hegðun. Þá er til staðar formlegt matsferli sem er framkvæmt af óháðum aðila auk þess sem aðgerðaáætlun er til staðar til að sporna gegn óæskilegri hegðun.

Áhersla Arion banka á jafnrétti styður við fimmta heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem snýr að jafnrétti kynjanna (e. gender equality).

Arion banki virðir mannréttindi og starfar í samræmi við íslensk lög og alþjóðlegar skuldbindingar.

Í lok árs 2016 varð Arion banki aðili að UN Global Compact, alþjóðlegri yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð fyrirækja. Með þátttökunni skuldbatt bankinn sig til þess að vinna að tíu grundvallarviðmiðum Sameinuðu þjóðanna sem varða samfélagsábyrgð, þar með talið að mannréttindum.

Jafnlaunastefna

Arion banki fylgir lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008, með síðari breytingum og öllum öðrum reglum og lögum um að konum og körlum sé ekki mismunað og að einstaklingar skuli fá greidd jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf.

Til þess að styðja við jafnlaunastefnuna fer bankinn eftir íslenska staðlinum ÍST 85:2012 um jafnlaunakerfi en samkvæmt staðlinum skulu launaviðmið vera fyrirfram ákveðin og hvorki fela í sér beina eða óbeina kynbundna mismunun, né heldur mismunun á grundvelli annarra þátta svo sem kynþáttar, kynhneigðar, trúarbragða eða þjóðernis. Stefna þessi nær til alls starfsfólks.