Um Arion banka
Arion banki er alhliða fjármálafyrirtæki sem leggur áherslu á að byggja upp langtíma viðskiptasamband við viðskiptavini sína og nýtur sérstöðu hvað varðar framsækna og nútímalega bankaþjónustu. Bankinn er skráður á aðallista kauphallanna Nasdaq Iceland og Nasdaq Stockholm.
Sem alhliða fjármálafyrirtæki þjónar Arion banki íslenskum heimilum og fyrirtækjum og leggur sérstaka áherslu á að uppfylla þarfir þeirra viðskiptavina sem þurfa fjölbreytta fjármálaþjónustu. Þjónustusvið bankans eru fjögur; viðskiptabankasvið, fyrirtækjasvið, fjárfestingarbankasvið og eignastýring. Dótturfélög auka enn frekar þjónustuframboð bankans, en þau starfa á sviði greiðslumiðlunar, sjóðastýringar og trygginga. Fjölbreytt þjónustuframboð felur í sér að tekjugrunnur starfseminnar er breiður og lánasafn bankans er vel dreift á milli einstaklinga og fyrirtækja annars vegar og atvinnugreina hins vegar. Þetta leiðir til góðrar áhættudreifingar.
Arion banki nýtur sterkrar stöðu á sínum mörkuðum sem byggir á skilvirkni og fjölbreyttu vöru- og þjónustuframboði. Kjarninn í stefnu bankans er að byggja upp langtímasamband við viðskiptavini með góðri þjónustu og sérsniðnum lausnum. Til að einfalda líf viðskiptavina hefur bankinn sett sér það markmið að vera leiðandi á sviði stafrænna lausna og nýsköpunar.
Arion banki er fjárhagslega sterkur banki sem leggur áherslu á að starfa á ábyrgan hátt í sátt við samfélag og umhverfi með það að markmiði að skapa verðmæti til framtíðar, viðskiptavinum, hluthöfum, samstarfsaðilum og samfélaginu öllu til góða.
Arion banki er íslenskur banki með starfsemi á Íslandi en þjónar þó einnig fyrirtækjum í sjávarútvegstengdum greinum í Evrópu og Norður-Ameríku.
Helstu þættir starfseminnar
Viðskiptabankasvið
- Viðskiptabankasvið skiptist í útibú og afgreiðslur, alls 20 talsins, sem eru víða um land.
- Þjónusta við viðskiptavini er veitt í útibúum og þjónustuveri bankans og í auknum mæli með stafrænum þjónustuleiðum.
- Veitir einstaklingum og smærri fyrirtækjum landsins alhliða fjármálaþjónustu, meðal annars ráðgjöf um inn- og útlán, þjónustuleiðir, sparnað, greiðslukort, lífeyrissparnað og tryggingar og upplýsingar um verðbréf og sjóði.
- Áhersla lögð á sérsniðnar lausnir og persónulega þjónustu.
Fyrirtækjasvið
- Fyrirtækjasvið veitir fyrirtækjum alhliða fjármálaþjónustu sem sniðin er að þörfum hvers viðskiptavinar.
- Áhersla er lögð á persónulega þjónustu og góða yfirsýn yfir þarfir viðskiptavinarins.
- Stór hluti eigna bankans eru útlán til fyrirtækja og endurspegla þau vel samsetningu efnahagslífsins.
- Meðal þjónustuþátta eru fjölbreytt úrval ávöxtunarleiða, fjármögnun, faktoring, fjárstýring, innheimtuþjónusta og netbanki.
Fjárfestingarbankasvið
- Fjárfestingarbankasvið samanstendur af fyrirtækjaráðgjöf, markaðsviðskiptum og greiningardeild.
- Gegnir forystuhlutverki hér á landi og hefur gert það til fjölmargra ára.
- Veitir víðtæka ráðgjöf og þjónustu í tengslum við fjárhagslega umbreytingu fyrirtækja.
- Markaðsviðskipti sjá um miðlun verðbréfa, gjaldeyris og afleiða fyrir viðskiptavini bankans á innlendum og erlendum mörkuðum.
- Greiningardeild fjallar um íslenskt efnahagslíf og spáir í framvindu efnahagsmála, þróun hagstærða og afkomu félaga og atvinnugreina. Regluleg umfjöllunarefni eru t.d. vextir, gengi krónunnar, fasteignamarkaðurinn, verðbólga og annað sem hæst ber hverju sinni. Greiningardeild gefur reglulega út Markaðspunkta sem aðgengilegir eru viðskiptavinum Arion banka. Greiningardeild hefur fullt sjálfstæði frá öðrum deildum bankans.
Eignastýringarsvið
- Eignastýringarsvið skiptist í einkabankaþjónustu, fjárfestingarþjónustu, rekstur lífeyrissjóða og eignastýringu fagfjárfesta.
- Sér um að ávaxta fjármuni fyrir viðskiptavini hvort sem um er að ræða lífeyrissparnað, reglulegan sparnað í sjóðum, fjárfestingar í sjóðum eða stýringu á eignasafni.
- Rekur lífeyrissjóði sem taka bæði á móti viðbótarlífeyrissparnaði og skyldulífeyrissparnaði.
- Er helsti söluaðili sjóða Stefnis hf. sem er sjálfstætt starfandi fjármálafyrirtæki í eigu Arion banka. Nánari upplýsingar um Stefni er að finna á www.stefnir.is.