Afkoma Arion banka á árinu 2018 var undir væntingum. Engu að síður var jákvæð þróun í grunnstarfsemi bankans, svo sem í vaxtatekjum og tekjum af tryggingum. Neikvæð þróun fjármagnstekna, m.a. vegna þróunar á verðbréfamörkuðum og hræringa í flugrekstri, hafði hins vegar neikvæð áhrif á afkomu ársins, sem nam 7,8 milljörðum króna, og arðsemi eiginfjár var 3,7%. Eiginfjárhlutfall í árslok var 22% en var 24% í árslok 2017. Lækkun eiginfjárhlutfalls kemur einkum til vegna arðgreiðslna og kaupa á eigin bréfum, sem námu alls um 33,3 milljörðum króna, og fyrirhugaðrar 10 milljarða króna arðgreiðslu vegna ársins 2018. Bankinn gaf á árinu jafnframt út sitt fyrsta víkjandi skuldabréf eiginfjárþáttar 2. Allt eru þetta skref í þeirri vegferð bankans að ná fram hagkvæmri fjármagnsskipan en Arion banki er sterkur fjárhagslega borið saman við banka á nágrannalöndunum. Þetta má m.a. sjá af 14% skuldahlutfalli bankans en algengt er að það hlutfall sé um og yfir 5% hjá bönkum á Norðurlöndum. Á árinu var bankinn skráður á aðalmarkaði Nasdaq Iceland og Nasdaq Stockholm að undangengnu vel heppnuðu alþjóðlegu hlutafjárútboði þar sem um 30% hlutur var seldur til innlendra og alþjóðlegra fjárfesta.
Það hefur um árabil verið markmið okkar að byggja upp fjárhagslega sterkan, arðsaman banka sem veitir góða fjármálaþjónustu með ábyrgum hætti – banka sem er áhugaverður fjárfestingarkostur. Það var því mikilvægur áfangi þegar fram fór almennt hlutafjárútboð og bankinn í kjölfarið skráður samhliða á markað á Íslandi og í Svíþjóð. Þetta voru ekki einvörðungu þáttaskil fyrir Arion banka heldur einnig fyrir íslenskan fjármálamarkað og efnahagslíf. Markaðsvirði bankans við skráningu var um 135 milljarðar króna. Ánægjulegur var sá mikli áhugi sem bankanum var sýndur í aðdraganda hlutafjárútboðsins og fór svo að lokum að eftirspurn varð margföld og kom frá innlendum og alþjóðlegum fjárfestum, fyrst og fremst frá Bretlandi, Bandaríkjunum, Þýskalandi og Svíþjóð.
Arion banki – þverskurður af efnahagslífinu
Margir fjárfestar líta svo á að fjárfesting í Arion banka sé fjárfesting í íslensku efnahagslífi. Það má til sanns vegar færa. Arion banki er íslenskur banki, einvörðungu með starfsemi hér á landi. Bankinn veitir alhliða fjármálaþjónustu, er með góða markaðshlutdeild á sínum mörkuðum og lánasafnið skiptist jafnt á milli einstaklinga og fyrirtækja. Samsetning lána bankans til fyrirtækja endurspeglar nokkuð vel samsetningu íslensks efnahagslífs.
Arion banki er íslenskur banki, einvörðungu með starfsemi hér á landi. Bankinn veitir alhliða fjármálaþjónustu, er með góða markaðshlutdeild á sínum mörkuðum og lánasafnið skiptist jafnt á milli einstaklinga og fyrirtækja.
Arion banki hefur stutt við viðskiptavini sína, jafnt einstaklinga sem fyrirtæki, á því vaxtarskeiði sem undanfarin ár hefur einkennt íslenskt efnahagslíf. Þó að hægja sé á vexti í efnahagslífinu er full ástæða til bjartsýni og viðskiptavinir bankans hafa sjaldan verið jafnvel settir þegar horft er til lágrar skuldastöðu og góðrar eiginfjárstöðu. Fyrirtækjaráðgjöf bankans hafði t.a.m. á árinu umsjón með tveimur af stærstu fyrirtækjaviðskiptum síðustu 10 ára, sá um stærstu skuldabréfaútgáfu ársins og gegndi lykilhlutverki í hlutabréfaútboði og skráningu Arion banka.
Ferðaþjónustan hefur verið mikill drifkraftur þess hagvaxtar sem hefur verið á Íslandi en nú eru merki um að hægja sé á vexti hennar. Hækkandi olíuverð á heimsmarkaði hefur sett mark sitt á ferðaþjónustuna og þrengt að í flugrekstri. Gjaldþrot flugfélags hafði neikvæð áhrif á afkomu Arion banka á þriðja ársfjórðungi 2018. Bankinn þurfti að færa niður eignir sem hafði þau áhrif að afkoma ársins og arðsemi er undir væntingum og markmiðum bankans.
Sterk staða bankans
Undirliggjandi rekstur bankans er áfram sterkur eins og sést á stöðugum þóknanatekjum, jákvæðri þróun vaxtatekna og góðum vexti í tekjum af tryggingastarfsemi. Vaxtamunur hækkaði nokkuð á fjórða ársfjórðungi, sem er ekki sjálfgefið í ljósi mikillar samkeppni á mörkuðum. Í náinni framtíð mun bankinn frekar horfa til arðsemi af lánasafni sínu og þá jafnvel á kostnað vaxtar lánasafnsins.
Undirliggjandi rekstur bankans er áfram sterkur eins og sést á stöðugum þóknanatekjum, jákvæðri þróun vaxtatekna og góðum vexti í tekjum af tryggingastarfsemi.
Á undanförnum árum hefur bankinn að takmörkuðu leyti greitt út arð og eigið fé því vaxið mikið með árunum. Erfitt getur reynst að ná fram ásættanlegri arðsemi eigin fjár þegar það er of mikið, án þess að til komi hækkanir á vöxtum og þóknunum sem viðskiptavinir greiða. Því hefur bankinn sett sér það markmið að lækka eigið fé yfir tíma og í takt við þá stefnu greiddi bankinn 16,3 milljarða í arðgreiðslur og keypti eigin bréf fyrir 17,1 milljarð á árinu 2018. Eiginfjárstaða bankans er áfram sterk og markmið bankans er að yfir tíma lækki hlutfall eiginfjárþáttar 1 í um 17%. Lausafjárþekjuhlutfall (LCR) bankans var í árslok 164%, sem er vel yfir þeim mörkum sem reglur Seðlabankans kveða á um.
Áfram verður unnið markvisst að þeim fjárhagslegu markmiðum sem bankinn hefur kynnt t.a.m. varðandi eiginfjárþátt 1, kostnaðarhlutfall og arðsemi. Bankinn hefur sett sér það markmið að ná fram 10% arðsemi af starfseminni á næstu árum og er unnið að því að stilla rekstur bankans af þannig að það markmið náist. Í því samhengi er m.a. lögð áhersla á kostnaðaraðhald og þegar hafa verið sett af stað verkefni með það að markmiði að draga úr rekstrarkostnaði. Nýtur bankinn góðs af þeirri stafrænu vegferð sem hann er á og því að hafa innleitt aðferðafræði straumlínustjórnunar þar sem áhersla er á að draga úr sóun í starfseminni, stöðugar umbætur og getuna til að breytast hratt og vel.
Fjölbreyttir fjármögnunarkostir
Innlán eru áfram einn mikilvægasti þátturinn í fjármögnun bankans og verður á árinu 2019 sérstök áhersla á að auka innlán viðskiptavina hjá bankanum. Á undanförnum misserum hefur bankinn stigið afgerandi skref til að auka fjölbreytni fjármögnunarkosta, meðal annars með útgáfu víkjandi skuldabréfa og útgáfu skuldabréfa í evrum og öðrum gjaldmiðlum. Á innlendum markaði hefur bankinn haldið áfram að gefa út sértryggð skuldabréf og víxla.
Arion banki gaf á árinu út skuldabréf til fimm ára að upphæð 300 milljónir evra. Umframeftirspurn var eftir skuldabréfunum en í heild bárust tilboð frá ríflega 40 fjárfestum fyrir um 375 milljónir evra. Jafnframt gaf bankinn út víkjandi skuldabréf eiginfjárþáttar 2 að fjárhæð 500 milljónir sænskra króna sem lið í að ná fram hagkvæmari skipan eiginfjár.
Þarfir viðskiptavina í fyrirrúmi – stafræn og persónuleg þjónusta
Við höfum náð góðum árangri á undanförnum árum við að aðlaga þjónustu bankans að breyttum þörfum viðskiptavina. Lögð hefur verið megináhersla á stafrænar lausnir með þróun Arion banka appsins, netbankans og annarrar þjónustu á vef bankans, sem gerir viðskiptavinum okkar kleift að sinna sínum fjármálum á þægilegan máta þegar þeim best hentar. Kannanir sýna að við erum á réttri leið þar sem Arion banka appið þykir það besta á Íslandi.
Á árinu kynntum við til leiks níu nýjar stafrænar lausnir og höfum alls á rúmum tveimur árum kynnt um 20 stafrænar lausnir, eins og greiðslumat og umsóknarferli fyrir íbúðalán, skammtímalán, sparnað og bílalán. Þessum lausnum hafa viðskiptavinir tekið fagnandi og hlaut bankinn á árinu þrenn alþjóðleg verðlaun fyrir bæði nálgun sína við þróun stafrænna lausna og fyrir lausnirnar sjálfar.
Á árinu kynntum við til leiks níu nýjar stafrænar lausnir og höfum alls á rúmum tveimur árum kynnt um 20 stafrænar lausnir.
Við höfum jafnframt þróað útibúanetið til að aðlaga það að nýrri stafrænni þjónustu. Markmiðið er annars vegar að styrkja kjarnaútibú bankans, þar sem boðið er upp á víðtæka þjónustu og ráðgjöf, en hins vegar að endurhanna minni útibú með áherslu á að aðstoða og kenna viðskiptavinum á stafrænar lausnir bankans og jafnvel finna þeim nýja staðsetningu sem er meira í leiðinni fyrir viðskiptavini, t.a.m. í verslunarkjörnum. Á árinu var nokkrum útibúum lokað eða þau sameinuð öðrum og hefur með því náðst fram margvíslegt hagræði, m.a. hefur dregið verulega úr þeim fermetrum sem fara undir starfsemina og minnkaði fermetrafjöldinn bara á höfuðborgarsvæðinu um hátt í 40%.
Arion banki setti sér á árinu nýja þjónustustefnu sem tekur mið af framangreindum breytingum í þjónustu bankans, þ.e. innleiðingu stafrænna lausna og breytingum á útibúanetinu. Markmiðið er að styrkja enn frekar forystu bankans hvað varðar stafrænar lausnir en einnig að styrkja alla persónulega þjónustu og ráðgjöf. Öll framlína bankans mun á næstu misserum sækja ítarlegt þjónustunámskeið þar sem starfsfólk fær þjálfun í að vinna í þessu nýja umhverfi þar sem samspil stafrænnar þjónustu og persónulegrar er lykillinn að árangri.
Árangur bankans á þessu sviði hefur vakið athygli en í lok árs var Arion banki valinn markaðsfyrirtæki ársins á Íslandi af ÍMARK, samtökum markaðsfólks, og af því erum við afar stolt.
Árangur bankans á þessu sviði hefur vakið athygli en í lok árs var Arion banki valinn markaðsfyrirtæki ársins á Íslandi af ÍMARK, samtökum markaðsfólks, og af því erum við afar stolt.
Ábyrg bankaþjónusta
Arion banki leggur ríka áherslu á að starfa með ábyrgum hætti með ólíka hagsmuni haghafa bankans í huga. Haghafar bankans eru starfsfólk, viðskiptavinir, hluthafar og samfélagið sem við störfum í. Sem fyrr var unnið að fjölmörgum verkefnum sem snúa að ábyrgri starfsemi og sjálfbærni. Þau verkefni sem ég vil sérstaklega nefna eru annars vegar endurskoðun lánareglna bankans, þar sem nú er sérstaklega kveðið á um að við lánaákvarðanir skuli sérstaklega horft til þátta sem snúa að samfélagsábyrgð, og hins vegar vinnu innan eignastýringar bankans þar sem skráð fyrirtæki hafa verið metin út frá samfélags- og umhverfisþáttum.
Arion banki fékk á árinu 2018 fyrstur íslenskra banka heimild til að nota jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins. Bankinn hefur lagt mikla áherslu á jafnréttismál á undanförnum árum og fékk fyrst Jafnlaunavottun VR árið 2015. Þeirri vottun hefur bankinn viðhaldið með reglulegum úttektum og hefur áhersla á jafnréttismál og vissa starfsfólks um að sömu laun séu greidd fyrir jafn verðmæt störf haft mjög jákvæð áhrif á menninguna innan bankans. Þá stenst bankinn mjög vel samanburð við skráð félög í Svíþjóð en bankinn var í 17. sæti á lista AllBright yfir 329 skráð fyrirtæki í Svíþjóð hvað varðar jöfn hlutföll kynjanna í hópi stjórnenda.
Arion banki fékk á árinu 2018 fyrstur íslenskra banka heimild til að nota jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins. Bankinn hefur lagt mikla áherslu á jafnréttismál á undanförnum árum og fékk fyrst Jafnlaunavottun VR árið 2015.
Ársskýrsla bankans fyrir árið 2018 inniheldur umfjöllun um samfélagsábyrgð og ófjárhagslega mælikvarða og gegnir því einnig hlutverki samfélagsskýrslu bankans. Þetta undirstrikar þá sýn okkar að samfélagsábyrgð sé ekki afmarkaður hluti starfseminnar heldur órjúfanlegur þáttur hennar. Í ár er sú nýbreytni í skýrslunni að tekin eru fyrstu skrefin í að upplýsa um ófjárhagslega mælikvarða í takt við GRI Core staðalinn. Einnig er horft til Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, 10 grundvallarviðmiða Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð, og viðmiða Nasdaq á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum sem snúa að ófjárhagslegri upplýsingagjöf og lykilmælikvörðum.
Mikilvægt ár í þróun bankans
Árið 2018 var eftirminnilegt og náðust mikilvægir áfangar fyrir bankann. Stendur þar hlutafjárútboð og skráning bankans á markað upp úr sem og sá mikli árangur sem við höfum náð í stafrænni sölu eins og fjöldi innlendra og alþjóðlegra verðlauna fyrir fagmennsku og framsækni ber vott um. Ánægja viðskiptavina okkar heldur áfram að aukast og þar höfum við einsett okkur að bæta okkur enn frekar með aukinni áherslu á gæði þjónustunnar og upplifun viðskiptavina.
Ég þakka samstarfsfólki og viðskiptavinum fyrir samstarfið á árinu.